Öflug menntun forsenda sterkra fyrirtækja og góðra lífskjara

Christoffer Taxell, forystumaður í finnsku atvinnulífi og fyrrverandi menntamálaráðherra Finnlands fjallaði um mikilvægi menntunar fyrir atvinnulífið á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 2012. Hann sagði að auka verði samvinnu menntastofnana og stjórnvalda við atvinnulífið við að móta áherslur í nýsköpun. Efling nýsköpunar eigi jafnframt að gera að sérstöku forgangsverkefni stjórnvalda og mikilvægt sé að skapa sameiginlega sýn um hvert stefna skuli. 

Christoffer hefur víðtæka reynslu úr finnskum stjórnmálum og athafnalífi en hann var formaður erlends sérfræðingahóps sem íslensk stjórnvöld fengu til að gera úttekt á menntakerfi, rannsóknum og nýsköpun í kjölfar bankahrunsins. Meginskilaboð hópsins birtust í skýrslu sem skilað var í maí 2009 og voru þau að tryggja yrði sem best fjármagn til menntunar á öllum stigum, endurskipuleggja þyrfti mennta- og rannsóknakerfið, leggja áherslu á nýsköpun og hrinda ákveðnum skipulagsbreytingum hratt í framkvæmd.

Christoffer Taxell á aðalfundi SA 2012.

Meðal fjölmargra tillagna má nefna að stefnt skyldi að því að háskólarnir yrðu einungis tveir og aukin áhersla yrði lögð á gæði og árangur. Christoffer vísaði til skýrslunnar á aðalfundi SA eins og sjá má í meðfylgjandi glærum hans. Hann undirstrikaði sérstaklega að ekki mætti gleyma góðri grunnmenntun í allri nýsköpunar-  og hátækniumræðunni - á henni byggi í raun allt.

Taxell fjallað einnig um reynslu Finna af því að ganga í gegnum djúpa kreppu á árunum eftir 1990 en atvinnuleysi í Finnlandi fór hæst í 18%. Eitt af þeim atriðum sem kom Finnlandi út úr kreppunni var umtalsverð fjárfesting í rannsóknum og þróunarstarfi sem lagði grunn að öflugum nýsköpunarfyrirtækjum.

Christoffer Taxell á aðalfundi SA 2012.

Þá fjallaði hann um stöðu efnahagsmála á alþjóðavettvangi og í gamni og alvöru benti  hann fundargestum á þá staðreynd að enginn hafi í raun áhuga á efnahagsmálum smáþjóða nema þær sjálfar - það eigi bæði við um Finnland og Ísland. Það sé því í okkar höndum að taka til hendinni og vinna okkur út úr vandanum sem við er að etja. Með góðri samvinnu stjórnvalda, atvinnulífs og menntastofnana, sameiginlegri stefnumörkun þessara aðila, geti smæð landsins hins vegar verið styrkur frekar en veikleiki.

Christoffer Taxell á aðalfundi SA 2012.

Christoffer óskaði Íslendingum góðs gengis við að uppfæra Ísland og sagðist hafa fulla trú á því að það tækist þó svo að verkefnin væru mörg og stór. Samtök atvinnulífsins lögðu fram á fundinum tillögur að öflugra menntakerfi og sterkara atvinnulífi, en þær má nálgast hér að neðan.

Sjá nánar:

Glærur Christoffer Taxell á aðalfundi SA 2012 (PDF)

Education, Research and Innovation policy A new direction for Iceland (PDF)

Tillögur SA: Uppfærum Ísland