Óendanleg tækifæri í tölvuskýjunum

GreenQloud er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem var stofnað var árið 2010 og var fyrst í heiminum til að nota 100% endurnýjanlega orku til að knýja tölvuský. Tölvuský er í sinni einföldustu mynd hugbúnaðarkerfi sem samnýta tölvubúnað í gagnaverum þar sem fyrirtæki geta leigt vinnslugetu eða hýsingarpláss. Hjá fyrirtækinu starfa nú 18 manns og viðskiptavini þess má finna í 61 landi. Rætt er við Bala Kamallakharan, framkvæmdastjóra fyrirtækisins í nýju tímariti SA og SA-TV um leiðir til að skapa fleiri og betri störf á Íslandi.  GreenQloud var nýverið tilnefnt sem eitt af 50 framsæknustu frumkvöðlafyrirtækjum heims á sviði upplýsingatækni og umhverfismála á CeBIT upplýsingatækniráðstefnunni.

Bala Kamallakharan, framkvæmdastjóri GreenQloud

Mynd: BIG

Í viðtalinu bendir Bala á að vöxturinn í greininni sé hraður eða um 40% á ári og því eftir miklu að slægjast. Bala líkir stöðunni við internetið og þá möguleika sem blöstu við í þróun þess á árunum 1995-2000. Sumir hafa jafnvel tekið svo stórt upp í sig að tala um að ný iðnbylting sé hafin og hún teygi anga sína til Íslands.

"GreenQloud er gott dæmi um vaxandi fyrirtæki á þessum markaði og tækifæri okkar til að ná fótfestu eru góð. Á tveimur árum höfum við vaxið og starfsmönnum fjölgað úr 2 í 18. Og það eru ný störf sem voru ekki til fyrir tveimur árum. Við teljum okkur geta skapað mörg ný störf til viðbótar sem verða hrein viðbót við vinnumarkaðinn. Það er frábær nýr heimur sem blasir við okkur með óendanlegum tækifærum til að búa til eitthvað nýtt og skapa verðmæti."

Bala vill að fleiri konur hasli sér völl í greininni. "Við viljum hafa fjölbreyttan starfsmannahóp og það er hreinlega erfitt að fá konur í störfin í dag. Við þurfum að hvetja þær til að fara í tækninám og taka þátt í uppbyggingunni."

Hægt er að lesa viðtalið í heild hér að neðan í tímariti SA og horfa á viðtal við Bala þar sem hann ræðir m.a. um gott samstarf við HR og HÍ og samræmingu fjölskyldu - og atvinnulífs.

Horfðu á viðtal SA-TV við Bala Kamallakharan:


Tengt efni:

Viðtalið við Bala Kamallakharan er á bls. 6-7:

Smelltu til að lesa!