Efnahagsmál - 

17. desember 2009

Óásættanleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óásættanleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar

Samtök atvinnulífsins eru aðilar að stöðugleikasáttmála við ríkisstjórnina sem undirritaður var 25. júní og ennfremur gaf ríkisstjórnin út sérstaka yfirlýsingu 28. október í tengslum við framlengingu kjarasamninga. Bæði í stöðugleikasáttmálanum og yfirlýsingunni er tekið fram að deilumál vegna stjórnar fiskveiða eigi að reyna að leysa í svokallaðri sáttanefnd sem nú er að störfum. Frumvarp um breytingu á stjórn fiskveiða sem nú hefur verið lagt fram gengur þvert á fyrirheit ríkisstjórnarinnar og slík vinnubrögð eru á engan hátt ásættanleg gagnvart Samtökum atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins eru aðilar að stöðugleikasáttmála við ríkisstjórnina sem undirritaður var 25. júní og ennfremur gaf ríkisstjórnin út sérstaka yfirlýsingu 28. október í tengslum við framlengingu kjarasamninga. Bæði í stöðugleikasáttmálanum og yfirlýsingunni er tekið fram að deilumál vegna stjórnar fiskveiða eigi að reyna að leysa í svokallaðri sáttanefnd sem nú er að störfum. Frumvarp um breytingu á stjórn fiskveiða sem nú hefur verið lagt fram gengur þvert á fyrirheit ríkisstjórnarinnar og slík vinnubrögð eru á engan hátt ásættanleg gagnvart Samtökum atvinnulífsins.

Þetta kemur fram í umsögn SA þar sem frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða nr.116/2006 (174. mál) er harðlega gagnrýnt. SA leggja til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar eða að það verði ekki afgreitt úr nefnd. Samtökin gera að auki eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið en umsögnina í heild má nálgast hér að neðan:

Ekki hreyfa við heimild til flutnings aflamarks milli ára

Ekki verður séð að bót sé að því að takmarka sérstaklega flutning aflamarks milli ára úr 33% í 15% en láta ráðherra svo fá opna heimild til þess að hækka hlutfallið.  Það er hluti af sveigjanleika stjórnkerfisins að hafa nokkuð rúma flutningsheimild.  Það skapar óvissu og óhagræði við rekstur fyrirtækja að ráðherra geti breytt yfirfærslu­heimildum hvenær sem er innan fiskveiðiársins.Fyrirtæki þurfa með góðum fyrirvara að taka rekstrarlegar ákvarðanir sem byggja á vissu um svo mikilvæg atriði.

Afnema ætti línuívilnun

Ekki er ástæða til að auka frekar við línuívilnun enda skapa þessar veiðar mismunun og vinna gegn hagræðingu í veiðum. Reyndar ætti að afnema línuívilnunina þar sem ekki eru haldbærar forsendur fyrir sérstakri mismunun á grundvelli hennar og þau rök sem upphaflega lágu línuívilnun til grundvallar eiga ekki nema að litlu leyti ennþá við.  Á þeim svæðum sem fyrst og fremst njóta línuívilnunar hafa byggst upp öflugar útgerðir sem ekki þurfa lengur sérstakan stuðning umfram aðra. Greinarmunur á því hvort beitt er eða eingöngu stokkað upp í landi er hæpinn og eykur á eftirlitsflækjur sem eru nógar fyrir.

Skylda til vinnslu uppsjávarfiska til manneldis ótækt

Ákvæði um skyldu til þess að vinna einstakar tegundir uppsjávarfiska til manneldis er ótækt. Hvort afli getur farið til manneldisvinnslu eða ekki ræðst af svo mörgum aðstæðum sem oft er ógerlegt að sjá fyrir fyrr en afli er kominn um borð í veiðiskip.  Í greinargerð er rætt um að taka beri mið af ástandi fisksins en um það er ekki hægt að kveða á í reglugerð né heldur að koma við viðeigandi eftirliti.  Almennt má ganga út frá því að afla sé ráðstafað í þá vinnslu sem hagkvæmast er hverju sinni og reglugerð um ráðstöfun afla er ólíkleg til að bæta þar eitthvað úr.

Breytingar á ákvæðum um veiðiskyldu

Sú breyting sem lögð er til á veiðiskyldu er ekki til bóta. Núverandi regla er niðurstaða af málamiðlunum og tekur m.a. til þess þegar meirháttar bilanir og tjón falla á fleiri en eitt fiskveiðiár.  Eins og frumvarpstextinn er nú  er óljóst hvernig með er farið þegar slíkt gerist.

Tillaga um lögbundna ofveiði á skötusel og óásættanlegt ákvæði um sölu heimilda

Ákvæði til bráðabirgða um skötusel er fráleitt.  Engar nýjar rannsóknir hafa verið gerðar á skötusel frá því er ákvörðun um skötuselskvóta var tekin sl. sumar í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknar­stofnunar.  Þá var ákveðið að fara eftir ráðgjöf stofnunarinnar og heimila veiðar á 2500 tonnum.  Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að útbreiðsla skötusels hafi breyst hin síðari ár og að nýliðun hafi almennt verið góð undanfarin ár að undanskildu árinu 2008.  Kvóti á skötusel hefur á undanförnum árum verið ákveðinn nokkuð umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en hún miðast við að ná hámarksafrakstri af stofninum.

Ákveði Alþingi að heimila skötuselsveiðar 80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar tvö ár í röð er það bein ákvörðun um að fiska niður þennan fiskistofn.  Slík ákvörðun er í engu samræmi við venjuleg sjónarmið um ábyrgar fiskveiðar.  Stofninn mun að líkindum minnka og verði nýliðun léleg á næstu árum kemur þetta harkalega niður mörg ár fram í tímann.  Aðfarir af þessu tagi draga mjög úr trúverðugleika Íslands á erlendum vettvangi.  Ennfremur er það einkennileg umhverfisstefna af hálfu ríkisstjórnarinnar sem birtist í því að vilja takmarka nýtingu auðlinda sem nóg er af s.s. orkuauðlinda, en ofnýta auðlindir sem eru takmarkaðar, s.s. skötusel.

Þá er óásættanlegur sá hluti ákvæðisins sem fjallar um sölu á aflaheimildum.  Ljóst er að tilboð um að selja 5 tonna skammta á 120 kr. kílóið er fyrst og fremst beint að þeim sem ekki hyggjast stunda þessar veiðar með því að gera upp við áhöfnina á brúttóverði.  Þessu er því beint að þröngum hópi útgerðarmanna en ekki almennra útgerða sem gera upp við sjómenn á fullu verði samkvæmt kjarasamningum og lögum.

Ljóst er að nokkrir aðilar hafa geta stundað beinar skötuselsveiðar í eigin rekstri með því að leigja til sín kvóta.  Til þess að slíkar veiðar fái staðist þurfa þær að vera tiltölulega takmarkaðar með nægilega mikinn afla á hverja sóknareiningu og ekki gert upp við áhöfn af fullu verði.  Við þær breytingar sem hér eru lagðar til má ætla að grundvöllur fyrir þessum veiðum hrynji við aukið veiðiálag þrátt fyrir að greitt sé minna fyrir kvótann.

Sjá nánar:

Umsögn SA til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis

Samtök atvinnulífsins