Nýtt skilakerfi raf- og rafeindatækja

Fimmtudaginn 10. júlí fer fram í Húsi atvinnulífsins undirbúningsstofnfundur félags til að reka skilakerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja.  Markmið félagsins er m.a. að kosta geymslu raf- og rafeindatækjaúrgangs og tryggja söfnun og móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá söfnunarstöðvum. Félagið er stofnað vegna lagabreytingar sem samþykkt var á nýafstöðnu þingi sem leggur nýjar skyldur á innflytjendur og framleiðendur og felast í því að tryggja förgun þessara tækja að notkun lokinni. Félaginu er ætlað að tryggja að meðhöndlun þessa úrgangs verði með eins hagfelldum hætti fyrir fyrirtækin og kostur er.

Fundurinn fer fram á 6. hæð í Húsi atvinnulífsins - Borgartúni 35 og hefst kl. 8:30. Eru öll fyrirtæki sem versla með eða framleiða raf- og rafeindatækjaúrgang hvött til að senda fulltrúa sína á fundinn og taka þátt í þessu mikilvæga verkefni frá upphafi. Samtök atvinnulífsins, SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins og Félag íslenskra stórkaupmanna boða til fundarins.

Á fundinum verða drög að samþykktum félagsins kynnt og kosin bráðabirgðastjórn.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku með því að senda Sigríði Önnu Guðjónsdóttur hjá SVÞ tölvupóst á netfangið: sigridur@svth.is

Skilakerfið nær til framleiðenda og innflytjenda eftirtalinna flokka raf- og rafeindatækja:

Raf- og rafeindatæki sem hönnuð eru til notkunar við rafspennu sem fer ekki yfir 1.000 volt þegar um er að ræða riðstraum og ekki yfir 1.500 volt þegar um er að ræða jafnstraum:

1.      Stór heimilistæki

2.      Lítil heimilistæki

3.      Upplýsingatækni- og fjarskiptabúnaður

4.      Neytendabúnaður

5.      Ljósabúnaður

6.      Raf- og rafeindatæki (að frátöldum stórum, föstum tækjum til iðnaðar)

7.      Leikföng og tómstunda-, íþrótta- og útivistarbúnaður

8.      Lækningatæki (að frátöldum ígræðsluvörum og vörum sem bera smit)

9.      Vöktunar- og eftirlitstæki

10.    Sjálfsalar