Menntamál - 

30. Janúar 2009

Nýsköpun Íslendinga í 14. sæti í Evrópu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýsköpun Íslendinga í 14. sæti í Evrópu

Ef lagt er mat á nýsköpun í hagkerfinu eru Íslendingar í 14. sæti ríkja í Evrópu og er það svipuð frammistaða og síðastliðin fimm ár þar sem Ísland hefur verið í 13.-15. sæti. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu European Innovation Scoreboard 2008 þar sem borin er saman nýsköpun í ríkjum Evrópu. Í mörg ár hafa Finnar verið í einu af efstu sætunum en á fundi SA í síðustu viku var því lýst hvernig Finnar sköpuðu með markvissum hætti nýsköpunarsamfélag að lokinni efnahagskreppunni sem yfir þá gekk á árunum 1991 - 1994.

Ef lagt er mat á nýsköpun í hagkerfinu eru Íslendingar í 14. sæti ríkja í Evrópu og er það svipuð frammistaða og síðastliðin fimm ár þar sem Ísland hefur verið í 13.-15. sæti. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu European Innovation Scoreboard 2008 þar sem borin er saman nýsköpun í ríkjum Evrópu. Í mörg ár hafa Finnar verið í einu af efstu sætunum en á fundi SA í síðustu viku var því lýst hvernig Finnar sköpuðu með markvissum hætti nýsköpunarsamfélag að lokinni efnahagskreppunni sem yfir þá gekk á árunum 1991 - 1994. 

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er Ísland undir meðaltali ESB ríkjanna á mælikvarða nýsköpunar. Þessi mælikvarði er búinn til með því að bera saman fjölmarga þætti sem taldir eru skipta máli við mat á nýsköpun.

European Innovation Scoreboard 2008


 Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Lagt er m.a. mat á það fé sem lagt er til nýsköpunar, fjölda vel hæfra og menntaðra einstaklinga, fjárfestingar fyrirtækja, tengsl milli stofnana, háskóla og atvinnulífs, afurðir í formi vöru, einkaleyfa og tækniþróunar og einnig á verðmætasköpun. Fram kemur að Ísland er ofarlega á lista um fjölda vel menntaðra og hæfra einstaklinga og eins að mikið fé er lagt til rannsókna og þróunarverkefna. Gallinn er sá að það kemur lítið út úr rannsóknum og þegar horft er til verðmætasköpunar er Ísland í 28. sæti af 32.

Í skýrslu sem gerð var á vegum ESB á síðasta ári um stöðu nýsköpunar hér á landi kom fram að verulega skortir stuðning við tækniþróun og nýsköpun almennt og sérstaklega í þjónustu og skapandi greinum. Eins koma fram áhyggjur af því hve fáir útskrifast með verkfræði- og raunvísindamenntun. Bent er á hve erfitt er að fjármagna lítil tæknifyrirtæki og að greiða þurfi úr því. Einnig er fjallað um sambandsleysi milli ráðuneyta.

Á Íslandi er um 90% af opinberu fé til rannsókna og þróunar ráðstafað beint til þeirra sem fá fé á fjárlögum, s.s. háskóla og rannsóknastofnana. Á Norðurlöndum er þetta hlutfall 60-70%.  Af þeim 10% sem renna í samkeppnissjóði fer um helmingur til sjóða sem fyrst og fremst úthluta til háskóla og stofnana.  Það er því aðeins um 5% af þessu fjármagni sem er úthlutað með verðmætasköpun að leiðarljósi.

Stjórnvöld hafa þó verið að bregðast við þessari stöðu mála enda hefur hún verið ljós um hríð.  Vísinda- og tækniráð hefur ályktað um að við úthlutun styrkja úr samkeppnissjóðum skuli leggja áherslu á verðmætasköpun.  Leggja verður áherslu á hagnýtt gildi við úthlutun styrkja og beina rannsóknum háskólanna almennt inn á þau svið sem nýtast atvinnulífinu. Háskólarnir verða að tengjast betur við atvinnulífið og brjóta niður múra sem til staðar eru. Takist það verður betur ljóst en áður hve mikivægt er að bæta menntun og auka rannsóknir í háskólunum og veita til þeirra nauðsynlegu fjármagni. Lofsvert er að í fjárlögum þessa árs var ákveðið að halda fast við að auka framlög til samkeppnissjóða þótt verðbólgan éti upp stóran hlut af þeirri aukningu.

Á þessu ári hefur starfsemi sína Frumtak, samlagssjóður, sem ætlað er að fjárfesta í vænlegum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn er í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, viðskiptabankanna og lífeyrissjóða og stofnfé hans er rúmir 4 ma kr. Enginn vafi er á því að hann getur orðið mjög til góðs og stutt við bakið á fyrirtækjum sem nýta þekkingu, hagvit og áræðni frumkvöðla. Einnig hefur verið ákveðið að atvinnuleysistryggingarsjóður geti veitt tímabundnar greiðslur til fyrirtækja með svokölluðum frumkvöðlasamningum. Með slíku geti fyrirtæki ráðist í ný þróunarverkefni og lagt grunn að nýjum störfum til frambúðar.

Það er mikilvægt að reynt verði að auka þá verðmætasköpun sem fæst fyrir það fé sem lagt til rannsókna hér á landi. Rannsóknir, nýsköpun og vöruþróun eru lykilþættir við uppbyggingu íslensks atvinnulífs í bráð og lengd. Besta leiðin til þessa er að efla samstarf atvinnulífs og háskóla, að efla samkeppnissjóði og styðja við nýja áhættufjármagnssjóði.

European Innovation Scoreboard 2008 (PDF)

Policy Trends and Appraisal Report: ICELAND 2008 (PDF)

Hvað gerðu finnsku fyrirtækin