31. október 2022

Nýr veruleiki - nýtt verklag

Starfsumhverfi atvinnulífsins

Starfsumhverfi atvinnulífsins

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Nýr veruleiki - nýtt verklag

Fagbréf atvinnulífsins fela í sér ótvíræðan ávinning

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) fer fram síðar í dag. FA er í eigu SA, ASÍ, BSRB, Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) og fjármála- og efnahagsráðuneytisins (fjr) og er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja eigenda í fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði. Hlutverk FA er að veita fólki á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið framhaldsskólanámi, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína. Það er ljóst að ör þróun og áður óþekktar áskoranir blasa við í starfsumhverfi okkar.

Dæmi um áðurnefndar áskoranir er ör tækniþróun sem hefur veruleg áhrif á störf, ekki síst á störf þeirra sem minnsta menntun hafa á vinnumarkaði í dag. Einnig má nefna hlutfall starfsmanna á vinnumarkaði með annað móðurmál en íslensku. Í báðum tilfellum getur reynst erfitt fyrir einstaklinga í þessum hópum að ljúka formlegu námi. Það takmarkar hins vegar ekki tækifærin til að meta og viðurkenna með formlegum hætti þá þekkingu sem þessir einstaklingar hafa tileinkað sér.

Ávinningur fagbréfa

Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa á vettvangi FA þróað Fagbréf atvinnulífsins þar sem sérstaklega er horft til starfa sem ekki krefjast formlegrar menntunar og eru líkleg til að taka miklum breytingum í náinni framtíð. Ferlið sem hefur verið þróað byggir á því að störf séu vel skilgreind, að færni viðkomandi starfsmanns sé metin, þjálfunaráætlun sett upp og að lokum viðurkenning sótt þegar markmiðum er náð. Ávinningur fagbréfa liggur ekki eingöngu hjá starfsmönnum heldur skapar hún jafnframt tækifæri á meðal atvinnurekenda til að kortleggja færni og þekkingu starfsfólks, leggur grunn að starfsþróun, markmiðasetningu og launasetningu.

Við viljum öll vera viss um að svigrúmið sem er til staðar við gerð kjarasamninga verði nýtt með sem skilvirkustum hætti og að hugað verði að nýrri nálgun sem endurspeglar áskoranir vinnumarkaðarins í dag. Með hugmyndafræði fagbréfa metum við þá miklu og verðmætu þekkingu og færni sem starfsmenn afla sér á vinnumarkaði. Þannig fjölgum við tækifærum starfsfólks til framþróunar í starfi og gerum með því íslenskan vinnumarkað betri. Það er okkur öllum til hagsbóta.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins