Nýr Evrópusamningur um fjarvinnu

Aðilar vinnumarkaðsins á Evrópuvísu undirrituðu þann 16. júlí 2002 samning um fjarvinnu. Það er það fyrirkomulag þegar starfsmaður innir, með aðstoð upplýsingatækni, reglulega af hendi störf utan starfsstöðvar fyrirtækis sem einnig er hægt að vinna þar. 

Samningur í stað löggjafar
Samningurinn á sér rætur í þeirri viðleitni Evrópu-sambandsins að koma á nútímalegra og sveigjanlegra vinnuskipulagi til að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og koma á því sem framkvæmdastjórnin kallar nauðsynlegt jafnvægi milli sveigjanleika og öryggis starfsmanna. Framkvæmastjórnin bauð aðilum vinnumarkaðarins því að semja um starfsskilyrði fjarvinnufólks í stað þess að bandalagið setti lög. Það er í samræmi við reglur Rómarsáttmálans um frumkvæðisrétt framkvæmda-stjórnarinnar. Íhugi hún að setja löggjöf á félagsmálasviðinu skal hún hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins um þau áform. Fyrst varðandi hugsanlegt efni slíkrar löggjafar. Séu lagasetningaráform enn á döfinni eftir það samráð skal framkvæmdastjórnin ráðfæra sig aftur við aðila vinnumarkaðarins og þá um efnisatriði fyrirhugaðrar löggjafar. Aðilar vinnumarkaðarins eiga þá möguleika á því að lýsa yfir vilja sínum til að semja um þau. 

Á þessum grundvelli hafa aðilar vinnumarkaðarins í Evrópu áður gert þrjá samninga sem teknir hafa verið óbreyttir upp í tilskipun og þannig orðið að Evrópulöggjöf.  Það eru samningarnir um foreldraorlofið sem tekinn var upp í fæðingarorlofslögin og samningarnir um hlutavinnu og tímabundnar ráðningar, en samningaviðræður hafa lengi staðið yfir milli SA og ASÍ um innleiðingu þeirra í íslensk lög. 

Ábyrgð samningsaðila
Nýi samningurinn er frábrugðinn fyrri samningum að því leyti að hann er alfarið á ábyrgð samningsaðila og verður ekki veitt lagagildi með tilskipun. Aðildarfélög samningsaðilanna sem eru Evrópusamtök atvinnurekenda, UNICE/UEAPME (þ.á m. SA) og CEEP annars vegar og ETUC (þ.á m. ASÍ), Evrópusamtök verkalýðsfélaga hins vegar, skulu taka reglur samningsins upp í kjarasamninga sína fyrir 16. júlí 2005. 


Það er því í fyrsta sinn sem samningsaðilar á Evrópuvísu gera samning sem þeir ábyrgjast sjálfir í stað lagasetningar. Talsmenn framkvæmdastjórnarinnar hafa í framhaldi af því lýst því yfir að samningurinn feli í sér kaflaskipti í evrópskri vinnumarkaðspólitík þar sem beinir samningar milli aðila komi í stað löggjafar.  

Efnisatriði samningsins

1. Fjarvinna byggir á frjálsu vali viðkomandi aðila. Sé fjarvinna ekki hluti upprunalegrar starfslýsingar er hvort heldur starfsmanni eða vinnuveitanda heimilt að samþykkja eða hafna beiðni um slíka breytingu. Neitun starfsmanns er sem slík ekki gild ástæða uppsagnar eða breytingar ráðningarkjara.

2. Ráðningarkjör.  Fjarvinnustarfsmaður skal njóta sömu kjara samkvæmt lögum og kjarasamningum og sambærilegir starfsmenn á starfsstöð fyrirtækisins.  Viðbótarsamningar sem taka tillit til sérstöðu fjarvinnunnar geta þó verið nauðsynlegir.  

3. Vernd tölvugagna. Vinnuveitanda ber að gera viðeigandi ráðstafanir, einkum varðandi hugbúnað, til að tryggja vernd gagna og upplýsa starfsmann um gildandi löggjöf og reglur fyrirtækisins þar að lútandi. Fjarvinnustarfsmanni ber að fara eftir þessum reglum. Vinnuveitandi veitir fjarvinnustarfsmanni upplýsingar, einkanlega um takmarkanir við notkun upplýsingatækni, svo sem veraldarvefsins og um viðurlög við brotum. 

4. Persónuvernd. Vinnuveitandi virðir einkalíf starfsmanna. Við notkun eftirlitskerfa skal gætt meðalhófs og hlutlægni auk þess sem við upptöku þeirra sé fylgt ákvæðum tilskipunar 90/270 um skjávinnu.  

5. Búnaður og tæki. Leyst skal úr spurningum varðandi búnað, ábyrgð og kostnað áður en fjarvinna er hafin. Almenna reglan er að vinnuveitandinn sér fjarvinnumanni fyrir nauðsynlegum búnaði og sér um viðhald hans nema fjarvinnumaður noti eigin búnað. Vinnuveitandinn greiðir beinan kostnað vegna  vinnunnar, einkum fjarskiptakostnað og sér fjarvinnumanni fyrir viðeigandi tækniþjónustu.

Vinnuveitandinn ber, í samræmi við þær reglur sem gilda samkvæmt landslögum eða kjarasamningum, ábyrgð á kostnaði vegna tjóns eða skemmda á búnaði eða gögnum sem fjarvinnumaður notar. Fjarvinnumaður skal gæta vel að þeim búnaði sem honum er fenginn og ekki safna eða dreifa ólöglegu efni á veraldarvefnum. 

6. Vinnuvernd. Vinnuveitandinn ber ábyrgð á að vinnuumhverfi fjarvinnumanns sé í samræmi við vinnuverndarreglur og upplýsir hann um vinnuverndarstefnu fyrirtækisins, einkanlega að því er varðar skjávinnu. Það er síðan starfsmannsins að fara eftir þeim reglum. Til að fylgjast með því skulu vinnuveitandi og trúnaðarmenn starfsmanna og/eða viðkomandi yfirvöld hafa aðgang að vinnustað starfsmanns innan þeirra marka sem lög eða kjarasamningar setja.  Vinni starfsmaðurinn á eigin heimili þarf að boða slíka heimsókn með fyrirvara og fá samþykki fjarvinnumanns. Starfsmaðurinn getur líka óskað eftir slíkri heimsókn.


7. Skipulagning vinnunnar. Fjarvinnumaður skipuleggur vinnutíma sinn innan marka laga, kjarasamninga og reglna fyrirtækisins. Verkefni og frammistaða fjarvinnumanns skulu samsvara því sem á við um sambærilega starfsmenn á starfsstöð fyrirtækisins. Vinnuveitandinn skal gera ráðstafanir til að fjarvinnumaður einangrist ekki svo sem með því að gefa honum tækifæri til að hitta samstarfsmenn reglulega og aðgang að upplýsingum sem fyrirtækið dreifir.

8. Starfsþjálfun. Fjarvinnumenn skulu hafa sömu möguleika á þjálfun og starfsframa eins og sambærilegir starfsmenn á starfsstöð fyrirtækisins. Þeir fá viðeigandi þjálfun miðað við þau tæki sem þeir nota og sérkenni þessarar tegundar vinnu. Yfirmenn fjarvinnufólks geta einnig þurft á að halda þjálfun varðandi stjórnun slíkrar vinnu. 

9. Félagsréttindi. Fjarvinnumenn hafa sömu félagsréttindi að því er varðar stéttarfélagsaðild og réttindi tengd henni og starfsmenn á starfsstöð fyrirtækisins. Engar hindaranir skulu vera við samskiptum við trúnaðarmenn.   Trúnaðarmenn skulu fá upplýsingar og haft við þá samráð um upptöku fjarvinnu. 


Sjá samninginn í heild á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar (pdf-snið).

Sjá einnig fréttatilkynningu UNICE (pdf-snið).