Nýjar séríslenskar reglur kynntar innan EES

Nú eru meðal annars í tilkynningaferli hjá EFTA og Evrópusambandinu frá íslenskum stjórnvöldum fjögur mál sem varða hagsmuni fyrirtækja hér á landi. Umhverfisráðuneytið kynnir drög að reglugerð um fullyrðingar við merkingu matvæla og drög að reglugerð um íblöndun bætiefna í matvæli. Frestur við þessi mál er til 23. mars nk. Heilbrigðisráðuneytið kynnir tvö mál þ.e. drög að reglugerð um samhliða innflutt lyf og drög að frumvarpi um breytingu á tóbakslögum þar sem frestur til 23. febrúar nk.

Drög að reglugerðum umhverfisráðuneytisins hafa ekki komið til umsagnar atvinnulífsins hér á landi og búast má við að þær verði birtar í Stjórnartíðindum óbreyttar komi ekki fram athugasemdir frá aðildarríkjum EES samningsins. Reglugerðirnar er að finna á heimasíðu Eftirlitsstofnunar EFTA annars vegar þar sem þær eru birtar bæði á íslensku og ensku. Eins er þær að finna á heimasíðu TRIS (Technical Regluation Information System) hjá Evrópusambandinu. Einnig er unnt að finna hvert unnt er að snúa sér í hinum ýmsu löndum til að gera athugasemdir við umrædd drög að reglugerðum. Eins og kunnugt er þá er meginmarkmið EES samningsins að tryggja frjálst flæði vöru á öllu svæðinu þannig að vara sem er lögleg í einu landi sé það einnig í öðru landi. Því er það spurning hvort það stenst að gera íblöndun bætiefna í matvæli eins og vítamína leyfisskylda hér á landi með skilyrðum sem ekki tíðkast á hinu evrópska efnahagssvæði.

Innflytjendum er bent á að gera birgjum sínum aðvart um þessar fyrirhuguðu reglugerðir þannig að þeir sem telja ástæðu til geti komið athugasemdum sínum á framfæri við viðkomandi yfirvöld.

Reglugerð um íblöndun bætiefna í matvæli

Í reglugerð þessari er gert ráð fyrir að íblöndun bætiefna eins og vítamína, steinefna, amínósýra og fitusýra verði háð leyfi Umhverfisstofnunar og að stofnunin geti sett skilyrði um merkingar á matvælin eftir að hafa metið þörfina fyrir íblöndunina.

Reglugerð um fullyrðingar í merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla

Gert er ráð fyrri að framvegis verði einungis heimilt að nota tilteknar fullyrðingar eins og fituskert, orkuskert og ekki aðrar. Heimilt verður að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar.

 

Reglugerð um samhliða innflutt lyf

Þessi reglugerð á að koma í stað reglugerðar 582/1996 um sama efni.

Frumvarp til breytinga á tóbakslögum

Samkvæmt frumvarpinu verða reykingar óheimilar á veitinga og skemmtistöðum frá 1. júní 2007, en þess má geta að Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt þetta til á aðalfundi.