Nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja (1)
Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja var gefin út í morgun á fjölsóttum morgunverðarfundi á Hilton Reykjavík Nordica. Að útgáfunni standa Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og NASDAQ OMX Iceland. Í þessari 4. útgáfu leiðbeininganna er að finna fjölmargar breytingar frá síðustu útgáfu, sem eiga það þó flestar sammerkt að vera formbreytingar fremur en viðamiklar efnisbreytingar.

Markmið leiðbeininganna er, sem fyrr, að bæta stjórnarhætti með
því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja, auðvelda
þeim þannig að rækja störf sín og um leið treysta hag helstu
hagsmunaaðlia fyrirtækja. Leiðbeiningunum er ætlað að sýna vilja
viðskiptalífsins í verki til að mæta þeirri ábyrgð sem á því hvílir
og frumkvæði þess við að taka upp viðmið sem styrkja innviði
fyrirtækja og efla traust almennt gagnvart viðskiptalífinu.
Þóranna Jónsdóttir, formaður starfshóps um stjórnarhætti:
"Hvernig fyrirtæki haga stjórnarháttum sínum skiptir sköpum við
uppbyggingu trausts á viðskiptalífinu. Leiðbeiningunum er því ekki
einungis ætlað að vera tæki fyrir stjórnir fyrirtækja til að gera
betur, heldur einnig fyrir hagsmunaaðila fyrirtækja, á borð við
fjárfesta og lánadrottna að meta störf stjórna. Takist okkur að
koma á víðtæku samstarfi þessara aðila og fjölmargra annarra er
grunnur lagður að bættum stjórnarháttum til lengri tíma."
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs:
"Góðir stjórnarhættir eru aðstandendum íslenskra fyrirtækja
hugleiknari nú en fyrir nokkrum árum og verulega hefur að
undanförnu miðað í rétta átt í vinnulagi í íslensku atvinnulífi. Ný
útgáfa stjórnarháttaleiðbeininga nú er aðeins til stuðnings þessu
ferli. Það sem hinsvegar skiptir mestu er að hagsmunaaðilar láti
sig góða stjórnarhætti varða og láta þá skipta raunverulegu máli
fyrir fyrirtækin. Þar er sérstaklega horft til fjárfesta,
lánadrottna, viðskiptavina, starfsfólks eda fjölmiðla. Úttekt a
stjórnarháttum, fyrirmyndarfyrirtæki, sem nú er boðið upp á veitir
þessum aðilum nauðsynlegar upplýsingar til að taka ákvarðanir sem
styðja við áframhaldandi jakvæða þróun í gæðum stjórnarhátta í
íslensku atvinnulífi."
Þó leiðbeiningunum sé sérstaklega beint að fyrirtækjum sem teljast
tengd almannahagsmunum, s.s. skráðum félögum, fjármálafyrirtækjum,
vátryggingafélögum og lífeyrissjóðum, þá geta þær gagnast öllum
fyrirtækjum, óháð stærð þeirra og starfsemi. Við gerð
leiðbeininganna var efnis leitað víða, en sérstök áhersla var lögð
á að þær stæðust samanburð við meginefni Norrænna leiðbeininga á
þessu sviði.
Helstu nýjungar leiðbeininganna eru:
-
Aukið er á upplýsingagjöf um aðila í framboði til stjórnar
-
Lagt er til að stjórn skilgreini árlega mikilvægustu verkefni sín
-
Kveðið er á um hvernig skuli haga upplýsingagjöf um samskipti utan stjórnarfunda
-
Lagt er til að í starfsreglum stjórnar sé fjallað um valdheimildir framkvæmdastjóra
-
Óhæðisviðmið hafa verið einfölduð og útfærð nánar m.a. m.t.t. fjölskyldutengsla
-
Lagt er til að stjórn skilgreini árlega þá áhættuþætti sem mikilvægast er að fyrirtækið takist á við
-
Ný liður er um fundargerðir stjórnarfunda
-
Kaflinn um undirnefndir stjórnar hefur verið einfaldaður sem og kaflinn um innra eftirlit
-
Aukið er á upplýsingagjöf á vefsíðum fyrirtækja
-
Meginatriði leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja hafa verið færð í viðauka við nýju leiðbeiningarnar
Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar hér.
Eintök af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja í skýrsluformi má panta með tölvupósti og fást þær einnig á skrifstofu Viðskiptaráðs. Leiðbeiningarnar kosta 3.000 kr. Ensk útgáfa leiðbeininganna verður aðgengileg á vefsíðum útgáfuaðila á næstunni.