Menntamál - 

07. Desember 2006

Nýjar EES-reglur um ríkisaðstoð til rannsókna og nýsköpunar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýjar EES-reglur um ríkisaðstoð til rannsókna og nýsköpunar

Framkvæmdastjórn ESB hefur tekið upp nýjar túlkunarreglur um ríkisaðstoð til rannsóknar- og þróunarstarfsemi (R&Þ) og nýsköpunar og gilda þær frá ársbyrjun 2007 innan ESB. Má gera ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) taki fljótlega upp hliðstæðar reglur sem gilda munu m.a. gagnvart slíkri ríkisaðstoð hér á landi. Með reglunum er leitast við að skýra hvaða ráðstafanir stjórnvalda vegna R&Þ feli í sér ríkisaðstoð og að hvaða marki þeim er heimilt að styrkja slíka starfsemi án þess að það brjóti í bága við ESB og EES reglur um ríkisaðstoð. Meðal nýmæla er að sérstakar reglur eru settar um styrki til nýsköpunar, en áður voru til staðar takmarkaðar reglur um það efni sem giltu einkum gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Framkvæmdastjórn ESB hefur tekið upp nýjar túlkunarreglur um ríkisaðstoð til rannsóknar- og þróunarstarfsemi (R&Þ) og nýsköpunar og gilda þær frá ársbyrjun 2007 innan ESB. Má gera ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) taki fljótlega upp hliðstæðar reglur sem gilda munu m.a. gagnvart slíkri ríkisaðstoð hér á landi. Með reglunum er leitast við að skýra hvaða ráðstafanir stjórnvalda vegna R&Þ feli í sér ríkisaðstoð og að hvaða marki þeim er heimilt að styrkja slíka starfsemi án þess að það brjóti í bága við ESB og EES reglur um ríkisaðstoð. Meðal nýmæla er að sérstakar reglur eru settar um styrki til nýsköpunar, en áður voru til staðar takmarkaðar reglur um það efni sem giltu einkum gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Almenn skilyrði

Samkvæmt 61. grein EES-samningsins er ríkisaðstoð bönnuð nema hún uppfylli skilyrði samningsins fyrir undanþágum og hafi verið samþykkt af ESA. Hinar nýju reglur fela í sér túlkun á þessu almenna lagaákvæði gagnvart aðstoð til R&Þ.

Talið er að evrópsk fyrirtæki þurfi að fjárfesta meir í R&Þ og nýsköpun til þess að standast samkeppni á heimsvísu. Skilvirkasta leiðin til að örva nýsköpun er að auka samkeppni. Samkeppni á frjálsum og opnum markaði rekur fyrirtæki til nýsköpunar þar sem þau geta með því aðgreint vöru- og þjónustuframboð sitt frá öðrum keppinautum, höfðað betur til viðskiptavina og þar með staðist samkeppni. Viðurkennt er þó að markaðsbrestir geta hamlað rannsóknar- og þróunarstarfsemi, m.a. vegna þess að ný þekking sem verður til með rannsóknum nýtist mun fleirum en fyrirtækjum sem greiða kostnaðinn. Þá getur þróunarstarfsemi verið sérlega áhættusöm, en vegna ófullkominna upplýsinga er þessi áhætta ekki alltaf rétt metinn á markaðnum. Afleiðingin er sú að fyrirtæki telja oft að fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun skili litlum arði þótt þær séu mjög mikilvægar frá þjóðfélagslegu sjónarmiði. Slíkir markaðsbrestir sem hamla R&Þ og nýsköpun eru taldir geta réttlætt ríkisaðstoð til þess að leiðrétta niðurstöðu markaðarins.

Reglurnar byggja m.a. á greiningu á markaðsbrestum og mati á því hve mikil ríkisaðstoð er réttlætanleg við ólíkar aðstæður án þess að hún leiði til óviðunandi röskunar á samkeppni. Er lagt mat á jákvæða þætti aðstoðarinnar við að örva slíka starfsemi og borið saman við hugsanleg neikvæð áhrif sem falist geta í röskun á samkeppni og truflun á viðskiptum milli landa. Er gerð krafa um að aðstoðin miði að vel skilgreindu þróunarmarkmiði, hún sé vel sniðin að því markmiði og feli í raun í sér hvatningu til aukinnar rannsóknarstarfsemi, en jafnframt að röskun á samkeppni og viðskiptum milli landa sé takmörkuð, þannig að í heild vegi jákvæðu áhrifin þyngra en þau neikvæðu.

Fjarlægð þróunarstarfseminnar frá markaðnum ræður í raun miklu um það hve mikilla styrkja hin ólíku verkefni geta notið. Eru mestir styrkir leyfðir þegar ekki er um markaðsstarfsemi að ræða en minni eftir því sem starfsemin færist nær markaðnum. Takmörk styrkja miðast við styrkhlutfall (e. aid intensity), sem er brúttó styrkur sem hlutfall af styrkhæfum kostnaði. Í reglunum er styrkhæfur kostnaður skilgreindur sem m.a. launa-, tækja-, húsnæðis- og stjórnunarkostnaður, en skilgreiningin tekur eingöngu til kostnaðar sem fellur til beinlínis vegna rannsóknarverkefnisins, enda óheimilt að veita rannsóknarstyrki til fjármögnunar á almennum rekstrarkostnaði fyrirtækja.

Rannsóknar- og þróunarstarfsemi

Samkvæmt reglunum greinist R&Þ í þrennt: grunnrannsóknir (e. fundamental research), iðnaðarrannsóknir (e. industrial research) og tilraunaþróun (e. experimental research). Leyfilegt styrkhlutfall ræðst að hluta einnig af stærð fyrirtækja, þar sem talið er að markaðsbrestir bitni meir á litlum fyrirtækjum en stórum, sem og af því hvort samstarf er um rannsóknir. Um stærð fyrirtækja er miðað við skilgreiningu í viðauka I í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar um ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en í því felst m.a. að lítil fyrirtæki hafi 50 starfsmenn eða færri og meðalstór allt að 250 starfsmenn, auk viðmiða um veltu, stærð efnahagsreiknings og sjálfstæði frá stórum fyrirtækjum. Leyfileg styrkhlutföll eru dregin saman í eftirfarandi töflu:

                  Hámarkshlutfall aðstoðar af styrkhæfum kostnaði

 

Lítil

fyrirtæki

Miðlungsstór

Fyrirtæki

Stór

fyrirtæki

Grunnrannsóknir

100%

100%

100%

Iðnaðarrannsóknir

70%

60%

50%

Iðnaðarrannsóknir háðar samstarfi
(milli landa þegar um stór fyrirtæki er að ræða eða við lítið- eða meðalstórt fyrirtæki; eða samstarf fyrirtækis við rannsóknarstofnun; eða rannsóknarniðurstöðum dreift)

80%

75%

65%

Tilraunaþróun

45%

35%

25%

Tilraunaþróun háð samstarfi

(milli landa þegar um stór fyrirtæki er að ræða eða við lítið- eða meðalstórt fyrirtæki; eða samstarf fyrirtækis við rannsóknarstofnun)

60%

50%

40%Þá er heimilt að veita styrk vegna tæknilegrar hagkvæmniskönnunar (e. technical feasibility study) sem nemur allt að 65% af styrkhæfum kostnaði til undirbúnings iðnaðarrannsókna en 40% til undirbúnings tilraunaþróunar, en þó 10% hærri hlutföll þegar um lítil og meðalstór fyrirtæki er að ræða. Þegar um lítil og meðalstór fyrirtæki er að ræða er sömuleiðis heimilt að veita styrk til greiðslu kostnaðar við kaup á hugverkaréttindum að sama marki og tilgreint er í framangreindri töflu.

Nýsköpun

Aðstoð við nýsköpun er skipt í eftirtalda flokka:

  • aðstoð við ung nýsköpunarfyrirtæki (e. aid for young innovative enterprises)

  • aðstoð við verkferla og skipulagslega nýsköpun í þjónustu (e. aid for process and organisational innovation in services)

  • aðstoð við ráðgjafar- og stuðningsþjónustu við nýsköpun (e. aid for innovation advisory services and for innovation support services)

  • aðstoð við lán á sérfræðingum (e. aid for the loan of highly qualified personnel)

  • aðstoð við klasafyrirtæki um nýsköpun (e. aid for innovation clusters)

Reglur um hámarksstyrkhlutföll vegna nýsköpunar eru ítarlegar og verða ekki raktar hér. Þó skal bent á að í sumum tilvikum er aðstoð við nýsköpun aðeins heimil til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en í öðrum tilvikum er styrkhlutfall hærra þegar slík fyrirtæki eiga í hlut. Þá miðast styrkhlutföll í sumum tilvikum við staðsetningu fyrirtækja og eru þá leyfðir hærri styrkir á svæðum sem uppfylla skilyrði um byggðaþróunaraðstoð.

Með nýju reglunum er þess vænst að stjórnvöldum í aðildarríkjunum veitist auðveldar að örva rannsóknar- og þróunarverkefni fyrirtækja með ríkisaðstoð sem fullnægir skilyrðum um undanþágu frá almennu banni við ríkisstyrkjum. Lítur framkvæmdastjórn ESB svo á að nýju reglurnar feli í sér mikilvægt framlag til stefnumörkunar sinnar um hagvöxt og atvinnusköpun sem kennd er við borgina Lissabon. Nú sé það hlutverk stjórnvalda í aðildarríkjunum að nýta sér þessar reglur eftir því sem þeim hentar.

Samtök atvinnulífsins