Ný vísbending um bata á vinnumarkaði

Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar fyrir september gefa til kynna að starfandi fólki hafi fjölgað um tæplega 1.000 á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama fjórðung 2011. Síðasta hálfa árið hefur þeim fjölgað um 1.500 (0,9%) samanborið við sama tímabil í fyrra og fyrstu níu mánuði ársins um 1.400 (0,8%). Niðurstaða rannsóknarinnar það sem af er árinu bendir því til þess að viðsnúningur hafi orðið á vinnumarkaði og það er ótvíræð niðurstaða hennar að störfum hafi fjölgað á árinu.

Þannig virðist betra ástand á vinnumarkaði en síðustu tvær kannanir hafa sýnt. Samkvæmt könnuninni var fjöldi starfandi 171.700 og fjölgaði um 7.500 frá ágúst, sem er afar óvenjulegt þar sem starfandi fólki fækkar yfirleitt í september vegna þess að skólafólk hverfur frá afleysingastörfum sínum í þeim mánuði og sest á skólabekk á ný.

Þegar litið er aftur í tímann hefur fjöldi starfandi dregist saman um tæplega 5.000 milli mánaðanna ágúst og september síðustu fjögur ár. Hafa ber í huga að vinnumarkaðsrannsóknin er úrtakskönnun og meðaltalsniðurstaðan töluverðri óvissu háð. Í raun er niðurstaðan sú að yfirgnæfandi líkur séu á því að fjöldi starfandi í september hafi verið á bilinu 166.000 til 178.000, samanborið við að í ágúst hafi fjöldinn líklegast verið á bilinu 162.000-174.000. Vera kann einnig að þessi sérstaka niðurstaða stafi einnig af því að meðaltalsniðurstaðan fyrir ágúst hafi verið í lægri kantinum þannig að það fari saman yfirskot í september og undirskot í ágúst.

Meðal annarra jákvæðra niðurstaðna könnunarinnar eru þær að þeim fækkar verulega sem standa utan vinnumarkaðar og atvinnulausum fækkaði í september um 1.400 miðað við sama mánuð 2011, eða úr 6% í 5% af vinnuaflinu. Atvinnuþátttakan jókst mikið milli þessara mánaða eða úr 77,6% í september 2011 í 80,6% í september 2012, eða um heil 3%. 

Til neikvæðra niðurstaðna könnunarinnar telst að áætlaður mannfjöldi á aldrinum 16-74 ára minnkaði milli þessara mánaða vegna brottflutnings af landinu og meðalvinnutími styttist um 0,7 stundir, úr 39,6 í 38,9 stundir.