Ný lög um starfskjarastefnu

Þann 1. október nk. taka gildi breytingar á hlutafélaga- og einkahlutafélagalögum á Íslandi. Með þeim breytingum er fylgt sömu stefnu og hefur verið mörkuð í nokkrum nágrannalöndum okkar en í kjölfar mikillar umræðu um starfskjarasamninga stjórnenda settu ríkin ákvæði í löggjöf sem miða að því að auka upplýsingagjöf til hluthafa um starfskjör stjórnenda. Með breytingum á lögunum er sú skylda sett á bæði hlutafélög og einkahlutafélög sem eru yfir ákveðnum stærðarmörkum að setja sér starfskjarastefnu.

Snertir mörg fyrirtæki

Í lögunum er kveðið á um að félög sem uppfylla tvö af eftirfarandi skilyrðum: eiga eignir er nema 120 milljónum, hafa rekstrartekjur er nema 240 milljónum eða hafa 50 ársverk á reikningsári tvö ár í röð, svo og öll félög sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða leggja ekki hömlur á viðskipti með eignarhluta beri skylda til að setja árlega fram starfskjarastefnu. Rétt er að vekja sérstaka athygli á að þetta þýðir að skyldan til að setja sér starfskjarastefnu nær til félaga sem eru undir ofangreindum stærðarmörkum en leggja ekki hömlur á viðskipti með eignarhluta. Hömlur á viðskipti með eignarhluta í félögum má setja í samþykktir félagsins á þann hátt að í þeim sé kveðið á um að við eigendaskipti að hlut önnur en við erfð eða búskipti skuli hluthafar eða aðrir hafa forkaupsrétt eða þannig að veðsetning, sala eða annað framsal á hlutum megi einungis fara fram með samþykki félagsins.

Samningar við stjórnendur og stjórnarmenn

Í starfskjarastefnunni skulu koma fram grundvallaratriði stefnu félagsins varðandi samninga við stjórnendur og stjórnarmenn. Hvað telst til grundvallaratriða í þessu sambandi er nokkuð opið og er að mestu leyti komið undir mati hluthafafundar og félagsstjórnar í hverju tilviki. Ekki er gert ráð fyrir að í stefnunni komi fram nein efri og neðri fjárhagsmörk fyrir grunnlaun, en þetta geta t.d. verið upplýsingar um lengd samninga, uppsagnarfrest og greiðslur við starfslok. Þá skal koma fram í starfskjarastefnunni hvort og þá við hvaða aðstæður og innan hvaða ramma heimilt sé að umbuna stjórnendum og stjórnarmönnum til viðbótar grunnlaunum í formi afhendingar hluta, árangurstengdra greiðslna, hlutabréfa, kaupréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu, lífeyrissamninga og starfslokasamninga. Ekki þarf þó að koma fram nein efri og neðri fjárhagsmörk fyrir slíka umbun.

 

Starfskjarastefna samþykkt á aðalfundi

Starfskjarastefnan skal lögð fram af félagsstjórn og skal hún samþykkt á aðalfundi félagsins ár hvert. Fyrir fundinn skulu hluthafar upplýstir um stefnuna og helstu atriði hennar sem og áætlaðan kostnað vegna kaupréttaráætlana sem samþykkja á á fundinum. Nægir einfaldur meirihluti atkvæða á hluthafafundinum til að samþykkja starfskjarastefnuna. Þá skal stjórnin á aðalfundinum gera grein fyrir kjörum stjórnenda og stjórnarmanna félags svo og framkvæmd áður samþykktar starfskjarastefnu. Til upplýsinga um kjör stjórnenda teljast m.a. vera upplýsingar um heildarfjárhæð greiddra launa á árinu, heildarfjárhæð árangurstengdra greiðslna, starfslokagreiðslur til þeirra sem látið hafa af störfum á reikningsárinu og upplýsingar til einstakra stjórnenda og stjórnarmanna í formi hlutabréfa, kaupréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu.

Starfskjarastefnan er leiðbeinandi fyrir félagsstjórn að öðru leyti en hvað varðar umbun í formi hlutabréfa, kaupréttar, söluréttar, forkaupsréttar eða annars konar greiðslna sem byggjast á verði hlutabréfa í félaginu. Hins vegar getur hluthafafundur ákveðið að kveða á um það í samþykktum félagsins að starfskjarastefnan sé bindandi um fleiri atriði en skylt er samkvæmt lögunum. Ef félagsstjórn víkur frá starfskjarastefnunni skal það rökstutt í hverju tilviki fyrir sig í gerðarbók félagsstjórnar.

Sjá nánar:

Breytingar á hlutafélagalögum: http://www.althingi.is/altext/stjt/2006.089.html

Breytingar á einkahlutafélagalögum: http://www.althingi.is/altext/stjt/2006.093.html