Ný lög um Seðlabankann ef vextirnir lækka ekki

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að ef ekki verði hagvöxtur á Íslandi strax á næsta ári verði það í boði Seðlabankans. Vaxtastefna bankans haldi samfélaginu í heljargreipum. Hann vill ný lög um bankann ef vextir lækka ekki fljótlega. Þetta kom fram á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem fram fór á föstudag.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um fundinn segir m.a.:

"Ég lít svo á að það sé hlutverk ríkisstjórnarinnar að sjá til þess að Seðlabankinn taki þátt í þessu samfélagi eins og aðrir," sagði Vilhjálmur og vitnaði í takmark stöðugleikasáttmálans um að stýrivextir yrðu lækkaðir niður í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember. Hann sagði að efnahagslegar forsendur til að halda stýrivöxtum svo háum sem raun ber vitni væru ekki til staðar. Ef fyrirtæki sjá sér hag í því að fjárfesta með lækkun vaxta og ef ráðist er í boðaðar framkvæmdir er Vilhjálmur þess fullviss að samdrætti, sem er spáð, verði snúið til hagvaxtar sem muni nema tveimur til fjórum prósentum á næsta ári. "Ef það verður samdráttur á næsta ári þá er hann í boði Seðlabankans," sagði Vilhjálmur. Hann sagði óhætt að segja að ófullkomið efnahagslíkan, sem búið væri til í Seðlabankanum, myndi ráða öllu í íslensku samfélagi.

Vilhjálmur tók svo djúpt í árinni að segja að ef breyta þyrfti lögum um bankann til að ná þjóðinni út úr kreppunni þá ætti einfaldlega að ganga í það verk.

Sjá nánar:

Vefútgáfa Fréttablaðsins 26. september