Ný lög um losun gróðurhúsalofttegunda

Alþingi setti um miðjan mars ný lög um losun gróðurhúsalofttegunda. Lögin kveða á um að tilteknum atvinnurekstri sé óheimilt að starfa á tímabilinu 2008 til 2012 nema hann hafi aflað sér heimildar til losunar koldíoxíðs (CO2). Atvinnurekstur sem undir lögin fellur er iðnaðarframleiðsla sem losar meira en 30 þúsund tonn af koldíoxíði á ári.

Áhrif á starfandi fyrirtæki

Þau starfandi fyrirtæki sem undir þetta falla eru þau sem teljast til orkufreks iðnaðar þ.e. álverin í Straumsvík, á Grundartanga og Reyðarfirði auk járnblendiverksmiðjunnar. Í greinargerð með frumvarpinu var talið að Sementsverksmiðjan á Akranesi væri við mörkin og þyrfti að afla sér heimilda. Einnig geta einstaka fiskimjölsverksmiðjur  sem nota olíu sem orkugjafa fallið undir lögin þegar vel aflast. Orkufrekur iðnaður sem ætlað er að taki til starfa fyrir árslok 2012 verður einnig að afla sér losunarheimilda. Fyrir 1. júní 2007 verða starfandi fyrirtæki að sækja um heimildir til losunar en aðrir eigi síðar en 9 mánuðum áður en starfsemi hefst. Umsóknir skulu sendar Umhverfisstofnun ásamt ýmsum upplýsingum sem kveðið er á um í lögunum.

Áætlun um úthlutun

Það er síðan þriggja manna nefnd sem annast úthlutun losunarheimilda og á að gefa út áætlun í síðasta lagi 1. október næstkomandi um úthlutunina. Áætlunin er bindandi. Nefndin sem skipuð er fulltrúum þriggja ráðuneyta (fjármála-, iðnaðar- og umhverfisráðuneytis) hefur til úthlutunar 10,5 milljón tonn af koldíoxíði fyrir allt tímabilið 2008 - 2012 en stærstur hluti þess er "íslenska ákvæðið" við Kyoto - bókunina. Það ákvæði heimilar sérstaka 1,6 milljón tonna árlega losun koldíoxíðs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum meðal annars um að notuð sé endurnýjanleg orka og beitt sé bestu fáanlegu tækni við framleiðsluna.

Úthlutun losunarheimilda tekur mið af útstreymi þeirra fyrirtækja sem þegar eru starfandi og áætlaðri losun þeirra sem taka til starfa á árinu 2007 eða síðar. Fyrst fá úthlutað þau fyrirtæki sem tekið hafa til starfa fyrir ársbyrjun 2008. Þeir sem hafa þegar fengið starfsleyfi eða eru langt komnir við undirbúning framkvæmda njóta forgangs. Að auki er unnt að afla heimilda til losunar með nýtingu sveigjanleikaákvæða Kyoto - bókunarinnar s.s. með verkefnum í þróuanrríkjum. Umhverfisráðherra getur sett reglugerð um það hvaða heimildir metnar verða gildar en búast má við að þær þurfi að hljóta viðurkenningu loftslagssamningsins.

Framleiðsla ekki takmörkuð

Ekki er ætlunin með þessum lögum að takmarka framleiðslu fyrirtækjanna heldur er markmiðið að íslensk stjórnvöld geti staðið við heildarskuldbindingar gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Kyoto - bókuninni við hann.