NÚNA er tækifærið – höftin burt

Senn verða sex ár liðin frá því gjaldeyrishöftum var komið á að nýju. Höftin áttu aðeins að vara skamman tíma en standa enn. Afnám þeirra er brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar.

Höftin hamla uppbyggingu útflutningsfyrirtækja, hafa neikvæð áhrif á lánshæfi landsins og ógna efnahagslegu jafnvægi. Aðstæður til afnáms eru eins hagstæðar og þær geta orðið. Efnahagslífið er í ágætu jafnvægi, verðbólga er lítil, hagvöxtur eykst á nýjan leik, afgangur er af viðskiptum við útlönd og traust á íslenska hagkerfinu fer vaxandi. Rekstur ríkissjóðs er í jafnvægi og aðgangur að erlendum lánamörkuðum hefur opnast á viðunandi kjörum. Vextir erlendis eru í sögulegu lágmarki og vaxtamunur við viðskiptalöndin styður við gengi krónunnar. Það er víst að svo hagstæðar aðstæður muni ekki bjóðast lengi meðal annars vegna þensluáhrifa sem höftin hafa á íslenskt efnahagslíf.

Það er ekki eftir neinu að bíða.

Í fremstu röð
Samtök atvinnulífsins hafa markað stefnu um að Ísland komist í hóp tíu samkeppnishæfustu þjóða heims á næstu 10 árum. Þannig verði stuðlað að aukinni fjölbreytni og arðsemi í íslensku atvinnulífi ásamt aukinni verðmætasköpun sem er forsenda betri lífskjara fyrir alla. Til að ná þessu markmiði settu SA fram 10 tillögur og er farsælt afnám gjaldeyrishafta þar efst á blaði. Þjóð í höftum mun aldrei njóta lífskjara á borð við nágrannaþjóðirnar og innan Íslandsmúrsins verður atvinnulífið fábreyttara en annars gæti orðið. Tækifæri glatast og fólkið í landinu mun líða fyrir það.

Ógn við stöðugleika
Gjaldeyrishöftin eru skaðleg þar sem þau brengla sýn og stuðla að rangri verðlagningu krónunnar og helstu eignamarkaða. Hætta er á að hagkerfið ofhitni innan hafta, verðbólga aukist og leiði á endanum til gengisfellingar. Hringrás sem Íslendingar þekkja allt of vel. Þá er ótalinn kostnaður vegna glataðra tækifæra, færri nýrra fyrirtækja og brotthvarfs annarra úr landi vegna óviðunandi rekstrarskilyrða. Stærsta efnahagslega áhætta Íslendinga felst ekki í afnámi hafta heldur í hættunni á að búa við þau um ókomna tíð.

Bent hefur verið á að innan gjaldeyrishafta muni þrengja að fjárfestingarkostum lífeyrissjóða og að eignarhluti þeirra í íslensku efnahagslífi verði meiri en góðu hófi gegnir. Með því að binda eignir sjóðanna í fjárfestingum á Íslandi hefur verið spáð að árið 2050 muni eignir þeirra samsvara núverandi verðmæti alls atvinnulífs og íbúðarhúsnæðis landsmanna. Gjaldeyrishöftin eru uppskrift að nýrri kreppu.

Gjaldeyrishöft um ókomna tíð?
Efnahagsleg áhætta við afnám hafta er mun minni en hættan sem fylgir enn einni rússíbanareið íslensks efnahagslífs með kunnuglegri kollsteypu í lok ferðar. Öll nauðsynleg skilyrði til afnáms hafta eru uppfyllt. Það kemur fram í nýrri skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika að frá því höftunum var komið á hafa aldrei verið eins góðar aðstæður og nú til að losa þau.

Þar með er ekki sagt að verkið sé auðvelt. Lengja þarf afborgunarferil svokallaðs Landsbankabréfs og búa svo um hnútana að uppgjör þrotabúa gömlu bankanna raski ekki þjóðhagslegum stöðugleika. En vöxtur hagkerfisins innan haftanna ógnar ekki síður efnahagslegu jafnvægi. Því verður að nýta góða stöðu þjóðarbúsins og afnema höftin áður en að tækifærið rennur okkur úr greipum.

Í hnotskurn eru aðstæður til afnáms hafta um þessar mundir eins góðar og völ er á. Alls óvíst er hversu lengi það ástand varir. Ryðja þarf úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir uppgjöri þrotabúa og lengingu Landsbankabréfs og ráðast að því loknu í niðurrif þeirra múra sem við höfum reist utan um íslenskt efnahagslíf með höftum. Ákvörðun um að afnema þau ekki við núverandi aðstæður felur í raun í sér ákvörðun um að búa við gjaldeyrishöft um ókomna tíð.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfs SA: Af vettvangi í október 2014