Norræn fyrirtæki standa sig vel á sviði samfélagsábyrgðar

Norræn fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að samfélagsábyrgð. Þetta kom fram á ráðstefnu um sem haldin var á vegum Center for Corporate Diversity í Osló þann 10. október síðastliðinn en fjallað er um málið á vef Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Dönsk og sænsk fyrirtæki eru leiðandi á þessu sviði og sem dæmi þá er danska fyrirtækið Novo Nordisk í fyrsta sæti á alþjóðlega Global 100 listanum yfir sjálfbærustu fyrirtækin 2012.

Dr. Marit Hoel hefur tekið saman yfirlit yfir stöðu norrænna fyrirtækja þegar kemur að samfélagsábyrgð en samkvæmt því eiga norsk og finnsk fyrirtæki töluvert langt í land með að komast nálægt þeim dönsku og sænsku. Þetta gildir ekki hvað síst um félög í opinberri eigu.

Í Danmörku er 100 stærstu fyrirtækjunum skylt að skrá hvað þau gera á sviði samfélagsábyrgðar og í Svíþjóð eiga öll ríkisfyrirtæki að gera árlega skýrslu um samfélagsábyrgð samkvæmt aðferðafræði Global Reporting Initiative eða GRI. Það vakti athygli að á Íslandi var eitt fyrirtæki sem hafði skrifað undir Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð árið 2009 en í ár, 2012, hafa 10 aðilar skrifað undir sáttmálann.

Fjölmargir fulltrúar Norrænna fyrirtækja fluttu erindi á ráðstefnunni, meðal annars frá fyrirtækjunum Statskraft, Telenor, IBM, Shell og Siemens í Noregi, Novo Nordiske í Danmörku, Volvo í Svíþjóð og frá Landsbankanum á Íslandi. Einnig voru flutt erindi um fjárfestingar og mat á fyrirtækjum og meðal þeirra sem fluttu erindi var Colin Mervin framkvæmdastjóri breska sjóðsins Hermes Equity Ownership Services og Anna Hyrske frá Ilmarinen Pension Fund í Finnlandi. Það er mat þeirra að það sé vaxandi áhugi á að fjárfesta í fyrirtækjum sem setja samfélagsábyrgð á oddinn en í raun sé skortur á nægilega góðum mæliaðferðum til að meta áhrif þessara þátta á arðsemi.

Sjá nánar:

Vefur Festu