Nauðsynlegt að skapa fleiri störf

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að leggja þurfi meira kapp á að útvega atvinnulausu fólki vinnu. Atvinnuleysi sé minnst á sumrin en fari svo vaxandi með haustinu. "Við höfum verið að vona að sveiflan verði ekki eins skörp upp á við og verið hefur, meðal annars vegna þess að það hefur gengið vel að fjölga ferðamönnum utan sumartímans. En vissulega höfum við áhyggjur af því að atvinnuleysið muni fara of langt upp, og ekki sé verið að skapa nógu mörg störf í hagkerfinu."

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins um stöðu mála á vinnumarkaðnum í dag segir m.a. að hlutfall atvinnulausra sem fái atvinnu hafi lækkað milli ára:

"Þegar litið er á tölur Hagstofu Íslands yfir atvinnulausa eftir lengd atvinnuleitar sést að á öðrum ársfjórðungi ársins 2012 höfðu 15,8% atvinnulausra fengið vinnu sem hófst síðar. Þegar litið er yfir þróunina frá árinu 2009 sést að þetta er lægra hlutfall en á síðustu tveimur árum. Árið 2010 var hlutfall atvinnulausra sem voru búnir að fá vinnu á 2. ársfjórðungi 17,4% og í fyrra var það 20,4%. Þetta bendir til þess að færri atvinnuleitendur séu að hefja störf í haust en á sama tíma í fyrra og árið þar áður."

Vilhjálmur segir að nær engin aukning hafi verið á störfum í júlí, sem bendi til þess að horfur fyrir haustið séu ekki góðar. "Annars vegar þurfum við að sjá fleiri störf skapast, og hins vegar þurfum við að sjá betri þjónustu við atvinnulaust fólk svo það verði ekki mörg ár á skrá."

Vilhjálmur segir að þörf sé á nýju átaki til þess að útvega fólki vinnu. Hann nefnir í því sambandi tilraunaverkefni þar sem verkalýðsfélögin, ASÍ og SA séu að þjónusta atvinnulausa, en vonast sé til að betri árangur náist með því verkefni en hingað til.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að þó að þær atvinnuleysistölur sem hafi heyrst í fréttum undanfarna daga hljómi eins og það sé minnkandi atvinnuleysi, þá sé ekki umtalsverður bati í atvinnulífinu. Heilmikil þekking hafi tapast úr mikilvægum atvinnugreinum, t.d. í byggingariðnaði. Það sé því minna af hæfu fólki og íslensk fyrirtæki eigi erfiðara með að bjóða því laun sem séu samkeppnishæf á alþjóðlegum vinnumarkaði.

Svana segir að atvinnuleysi haldist í hendur við litlar fjárfestingar. "Fyrir því er sterkt sögulegt samhengi. Fyrir hverja prósentu sem fjárfesting eykst má gera ráð fyrir að atvinnuleysi minnki um hálfa prósentu," segir hún.

Sjá nánar í Morgunblaðinu 20. ágúst 2012