Nauðsynlegt að rýmka atvinnuleyfisheimildir

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við fréttastofu Útvarps að íslensk þekkingarfyrirtæki þurfi á sérhæfðu og háskólamenntuðu starfsfólki að halda - frá Bandaríkjunum, Kanada, Kína, Indlandi og fleiri ríkjum sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins. Rýmka þurfi heimildir til þess að þetta fólk geti unnið hér.

Atvinnuleysi mælist nú undir 1% og hefur ekki mælst minna í einum mánuði frá því í október árið 2000. Vilhjálmur segir að lítið atvinnuleysi lýsi í raun góðu ástandi þar sem fyrirtækin vilji ráða til sín fólk. Það hafi virkað ágætlega fyrir þau fyrirtæki sem ekki þurfi sérhæft starfsfólk að leita til útlanda en nú blasi við skortur á sérhæfðu og háskólamenntuðu fólki.

Hægt er að hlusta viðtalið við Vilhjálm á vef RÚV