Menntamál - 

20. Febrúar 2019

Nægir stafræn færni?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nægir stafræn færni?

Samhengi hlutanna er yfirleitt það að rétti fylgir skylda og að hvoru tveggja fylgir ábyrgð. Við erum iðulega minnt á þetta þegar við stöndum frammi fyrir áhugaverðum tækifærum eða áskorunum og sú er líka raunin þegar við tökumst á við stafrænan veruleika sem verður sífellt fyrirferðameiri í lífi okkar og starfi. Þarna eru tækifæri sem geta aukið lífsgæði okkar ef rétt er á spilum haldið.

Samhengi hlutanna er yfirleitt það að rétti fylgir skylda og að hvoru tveggja fylgir ábyrgð. Við erum iðulega minnt á þetta þegar við stöndum frammi fyrir áhugaverðum tækifærum eða áskorunum og sú er líka raunin þegar við tökumst á við stafrænan veruleika sem verður sífellt fyrirferðameiri í lífi okkar og starfi. Þarna eru tækifæri sem geta aukið lífsgæði okkar ef rétt er á spilum haldið.

Á lista yfir mikilvægustu færni starfsmanns framtíðarinnar má finna atriði á borð við samskipti, samstarf, tilfinningagreind, sköpun og lausnamiðaða hugsun.

Á sama tíma og við erum að takast á við stafræna veruleikan mætum við breyttum aðstæðum á vinnumarkaði. Störf sem við höfum þekkt um árabil hverfa, önnur þróast og ný verða til. Starfsmaður framtíðarinnar þarf að mæta annars konar kröfum um færni en áður. Á lista yfir mikilvægustu færni starfsmanns framtíðarinnar má finna atriði á borð við samskipti, samstarf, tilfinningagreind, sköpun og lausnamiðaða hugsun. Áherslur á listum sem þessum gefa sterkar vísbendingar um að menntun muni felast í þjálfun á færni fremur en miðlun á svörum og utanbókarlærdómi. Kennsluumhverfi þarf að móta með þeim hætti að þessi þjálfun fari fram.

Á síðustu árum höfum við séð jákvæða þróun á mörgum sviðum tengt stafrænni tækni og sannarlega hefur hún skapað tækifæri í skólastarfi líkt og annars staðar. Tækifærin felast m.a. í fjarnámi af ýmsu tagi, einstaklingsmiðuðu námi sem þýðir að hver og einn getur unnið á sínum hraða í verkefnum. Fyrirlestrar eru teknir upp svo nemendur sem ekki sækja kennslustundir geti fylgst með á netinu og jafnframt skilað þar í gegn verkefnum. Í mörgum tilfellum leysir þetta vanda og gerir einstaklingum kleift að sækja nám sem þeir ekki hefðu getað með hinum hefðbundna hætti.

Það er mikilvægt að við stöldrum við og rýnum með hvaða hætti þessi þróun kallast á við nauðsynlega færni starfsmanns framtíðarinnar. Námsumhverfi framtíðarinnar verður að mótast af fyrirsjáanlegum þörfum á vinnumarkaði og í því verða að skapast aðstæður sem styðja þjálfun á þeirri færni sem nauðsynleg verður. Þar er mikilvægt að horfa til þess að stafræn þróun leiði ekki til þess að nemendur fjarlægist þessar aðstæður eða fái með takmörkuðum hætti að þjálfa félagslega færni og aðra færniþætti sem varla verða, frekar en sund, þjálfaðir með lestri bóka eða spjaldtölva. Lykillinn að árangri í lífi og starfi verða áfram gjöful samskipti, samstarf, sköpun og tilfinningagreind.

Á Menntadegi atvinnulífsins í Hörpu 14. febrúar var m.a. fjallað um kennslustofu framtíðarinnar, stöðu okkar í læsi og fleiri mikilvæg menntamál. Rétt nýting á stafrænni tækni í menntakerfinu er sameiginlegt tækifæri okkar allra en um leið berum við sameiginlega ábyrgð á því að standa vel að mikilvægum skrefum sem okkar bíða í því sambandi.

Inigbjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA.

Greinin birtist í Fréttablaðinu.

Tengt efni:

Upptökur frá Menntadegi atvinnulífsins 2019

 

 

 

 

 

 

 

Samtök atvinnulífsins