Ná verður tökum á gengi krónunnar

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við fréttastofu RÚV að vaxandi skilningur sé á að þörf sé fyrir ný vinnubrögð við gerð kjarasamninga á árinu. Hann segir að vinnumarkaðurinn leiki stór hlutverk í því hvort takist að gera nýja þjóðarsátt eins og talsvert hefur verið rætt um á vettvangi stjórnmálanna.  Fastgengisstefna hafi verið tekin upp eftir þjóðarsáttina árið 1990 en hvernig peningamálastjórn verði háttað ráði miklu um hvernig til takist. Þá sé mikilvægt að auka stöðugleika gengis krónunnar þar sem stór hluti verðbólgunnar hafi sprottið upp úr miklum gengissveiflum undanfarin 15 ár.

Fréttablaðið í dag fjallar einnig um vinnumarkaðinn, stjórnmálin og mögulega nýja þjóðarsátt. Í viðtali við blaðið segir Þorsteinn SA vilja kanna kosti þess að taka upp fastgengisstefnu á ný.

"Í kjölfar þjóðarsáttar síðast upplifðum við í fyrsta skipti, nánast í sögu hagstjórnar á Íslandi, tímabil með stöðugu gengi og lágri verðbólgu," segir Þorsteinn. Þá hafi verið byggt á föstu gengi.

Mikilvægt sé að ná samstöðu meðal þjóðarinnar um hógværar launahækkanir á næstu árum til að ýta ekki undir verðbólgu sem éti þær upp. Samhliða verði að fylgja aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu.

Smelltu hér til að hlusta á frétt RÚV

Umfjöllun Fréttablaðsins - smelltu til að lesa