Fréttir - 

24. október 2018

Munu þau þekkja kynbundinn launamun?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Munu þau þekkja kynbundinn launamun?

Samtök atvinnulífsins vekja athygli á því á Kvennafrídeginum að fyrirtæki sem mismuna fólki í launum eftir kynferði brjóta lög, sóa verðmætum og standa sig verr í samkeppni á markaði.

Samtök atvinnulífsins vekja athygli á því á Kvennafrídeginum að fyrirtæki sem mismuna fólki í launum eftir kynferði brjóta lög, sóa verðmætum og standa sig verr í samkeppni á markaði.

„Það er mikilvægt að stjórnendur haldi vöku sinni og mismuni ekki starfsfólki af gáleysi heldur nýti krafta allra jafnt,“ segir í hvatningu samtakanna sem birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag.

Stjórnendur og starfsfólk geta lagt sitt af mörkum til þess að börn sem eru að alast upp í dag þekki ekki hugtakið kynbundinn launamun þegar þau koma út á vinnumarkaðinn.

Launamunur kynja á sér margar ástæður og viðhorfsbreytingar er þörf á fjölmörgum sviðum til að vinna gegn honum. Karlar og konur þurfa að bera jafna ábyrgð á heimilinu. Foreldrar, skólakerfið og samfélagið allt þarf að stuðla að breytingum á náms- og starfsvali ungmenna til að brjóta upp kynjaskiptan íslenskan vinnumarkað.

Stjórnendur og starfsfólk geta lagt sitt af mörkum til þess að börn sem eru að alast upp í dag þekki ekki hugtakið kynbundinn launamun þegar þau koma út á vinnumarkaðinn.

Mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum þó svo að alltaf megi gera betur. Í rannsókn Hagstofu Íslands sem birt var fyrr á þessu ári kemur t.d. fram að á almennum vinnumarkaði minnkaði leiðréttur launamunur kynjanna um þriðjung á átta ára tímabili (2008-2016). Hann var 8,1% árið 2008 og 5,4% árið 2016 og minnkaði þannig um 2,7 prósentur. Hjá hinu opinbera minnkaði leiðrétti launamunurinn úr 5,2% í 3,3%, eða um 1,9 prósentu og á vinnumarkaðnum í heild úr 6,6% í 4,5%, eða um 2,1 prósentu. Hvort tveggja er um þriðjungs minnkun launamunar.

Í dag er efnt til funda víða um land á degi Sameinuðu þjóðanna undir merkjum Kvennafrídags en dagurinn var fyrst haldinn þann 24. október árið 1975. Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki og stjórnendur til að sýna sveigjanleika þar sem því verður við komið og veita starfsfólki tækifæri til að taka þátt í dagskránni kjósi það svo.

Sjá nánar:

Hvatning SA 24. október 2018 (PDF)

Launamunur kynjanna minnkar verulega

Samtök atvinnulífsins