Morgunfundur SA um þjónustutilskipun ESB

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að hafa innleitt þjónustutilskipun ESB í íslensk lög fyrir árslok 2009. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja betur frjáls þjónustuviðskipti í Evrópu. Af þessu tilefni efna Samtök atvinnulífsins til morgunfundar á  Grand Hótel Reykjavík, föstudaginn 28. nóvember, kl. 8:30-10:00. Erindi flytja Carlos Almaraz sérfræðingur frá BUSINESSEUROPE, Gunnar Þór Pétursson hdl. sérfræðingur við lagadeild HR og Valgerður Rún Benediktsdóttir, lögfræðingur hjá viðskiptaráðuneytinu.

Innleiðing þjónustutilskipunnar ESB er þegar hafin á Íslandi en í tengslum við innleiðinguna verður sett upp sérstök upplýsinga- og þjónustumiðstöð þar sem þjónustuveitendur erlendir og innlendir geta átt öll samskipti við stjórnvöld á einum stað.

Þá er öll íslensk löggjöf sem gerir kröfur til þjónustuveitenda s.s. um leyfisveitingar í endurskoðun, með það fyrir augum að afnema slíkar kröfur eða rökstyðja sérstaklega þær kröfur sem íslensk stjórnvöld vilja halda til streitu.

Þjónustutilskipun ESB er ætlað að einfalda regluverk og samskipti fyrirtækja við stjórnvöld. Samtök atvinnulífsins hvetja félagsmenn til að mæta og kynna sér tilskipunina og möguleg áhrif hennar á íslenskt atvinnulíf.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér á vef SA.

Fundurinn fer fram á Grand Hótel Reykjavík Gullteig - skráning og morgunkaffi frá 8:00-8:30.

Fundarstjóri er Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður hjá SA.

Smellið hér til að skrá þátttöku

Samtök atvinnulífsins eru ásamt Samtökum iðnaðarins aðilar að BUSINESSEUROPE (Evrópusamtök atvinnulífsins) en BUSINESSEUROPE  er málsvari yfir 20 milljón fyrirtækja í 34 löndum.