Mörg stór verkefni bíða

Fjallað er um stöðu atvinnumála í helgarútgáfu Morgunblaðsins og þau fjölmörgu stóru verkefni sem eru í bið, m.a. á sviði orkunýtingar og umbóta í samgöngumálum. Markmið sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin settu sér í yfirlýsingu í tengslum við undirritun síðustu kjarasamninga eru rifjuð upp, m.a. að hlutfall fjárfestinga verði komið í 20% af landsframleiðslu í lok samningstíma en fjárfestingar á Íslandi eru nú í sögulegu lágmarki.

"Það eru mikil vonbrigði að ekki sé verið að vinna saman að því að hraða framkvæmdum í orkumálum eða samgönguverkefnum. Þar átti að taka höndum saman með lífeyrissjóðunum að fjármagna einhver stórverkefni, eins og var talað um. Í yfirlýsingunni var talað um að reyna til þrautar að leita leiða til að setja í gang stór samgönguverkefni. Það var hins vegar slegið af," segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Almennt hafi sú stefna verið tekin í kringum kjarasamningana og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í vor og svo stöðugleikasáttmálann 2009, að auka þyrfti hagvöxt með fjárfestingum einkum í útflutningsgreinunum og ná þannig atvinnuleysinu niður.

Í samtali við Morgunblaðið bendir Hannes á að fjárfesting í hlutfalli af landsframleiðslu á síðasta ári sé sú minnsta sem mælst hafi í sjötíu ár, um 13%. "Í ár mælist einhver aukning vegna Straumsvíkur og Búðarháls en lítið annað sést. Opinberar fjárfestingar eru í algeru lágmarki og atvinnulífið er almennt séð að gera lítið nýtt. Sjávarútvegurinn er lítið að fjárfesta þó að fullt tilefni sé til þess, vegna þeirrar pólitísku óvissu sem hefur skapast í kringum starfsskilyrði hans."

Hannes segir að í vor hafi verið stefnt að 350 milljarða árlegum fjárfestingum á næstu árum. Það ætti að geta knúið fram þann hagvöxt sem þyrfti til komast aftur nær fullri atvinnu þegar nokkur ár hafa liðið. "Við erum ekkert að sjá það gerast," segir Hannes en ef Helguvíkurverkefnið færi í gang sæist hilla undir það að markmið um fjárfestingu næðust á árinu 2013.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu, laugardaginn, 8. október 2011, þar sem m.a. er að finna yfirlit yfir stöðu helstu framkvæmda.