Mismunandi skattar – mismunandi forsendur

Í umræðum um fjármagnstekjuskatt og tekjuskatt einstaklinga og tekjuskatt fyrirtækja hefur vantað að draga nægilega vel fram að samanburður á skattprósentum einum og sér segir mjög litla sögu og leiðir auðveldlega til þess að rangar ályktanir eru dregnar. Þannig hefur lítið verið fjallað um þann grundvallarmun sem er á tekjuskatti einstaklinga og fjármagnstekjuskattinum og tekjuskatti fyrirtækja að tveir síðarnefndu skattarnir eru flatir skattar meðan tekjuskattur einstaklinga er byggður upp með allt öðrum hætti, þ.e. að skattprósentan er tiltölulega há (36,72% í staðgreiðslunni) en síðan er veittur persónuafsláttur þannig að lægstu tekjur koma ekki til skattlagningar.

Tekjuskattur allt frá 0%, barnabætur o.fl. neikvæður tekjuskattur

Uppbygging tekjuskatts einstaklinga þýðir að raunveruleg skattprósenta er allt frá því að vera 0% upp í að nálgast staðgreiðsluhlutfallið þegar tekjur verða mjög háar. Þetta er gert í tekjujöfnunarskyni þannig að þeir sem hærri tekjur hafa greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta. Að sumu leyti hefur tekjuskattur einstaklinga líka einkenni neikvæðs tekjuskatts þar sem barnabætur og vaxtabætur eru beinlínis greiddar út og þessar bætur auka enn á tekjujöfnunaráhrif skattsins.

Tekjuskattur fyrirtækja (18%) og fjármagnstekjuskatturinn (10%) eru flatir skattar þannig að það er greitt sama hlutfall af skattstofninum í skatt óháð því hvort tekjur séu háar eða lágar (nema í undantekningartilvikum þar sem persónuafsláttur nýtist að hluta). Skattamál eru alls staðar til umræðu þar sem skattar eru lagðir á og víða erlendis hefur verið mikil umræða um að æskilegt væri að taka upp flatan tekjuskatt einstaklinga og víðast hvar hefur þróunin verið í þá átt að fækka skattþrepum. Dæmi eru líka um lönd sem hafa tekið upp flatan tekjuskatt á einstaklinga. Hér á landi hefur verið reiknað út að flatur tekjuskattur á einstaklinga þyrfti að vera í kringum 20% til þess að skila sömu tekjum og nú, en þá er ekki tekið inn í reikninginn að væntanlega myndi slíkur skattur leiða til aukinna tekna einstaklinga og stærri skattstofns.

Tekjuskattur einstaklinga með tekjujöfnunarhlutverk

Við uppbyggingu tekjuskatts einstaklinga hafa það verið ríkjandi sjónarmið að skatturinn hefði tekjujöfnunarhlutverk. Það sama átti ekki við við þróun á tekjuskatti fyrirtækja.  Þannig hefur aldrei verið nein krafa um tekjujöfnun milli fyrirtækja eftir því hvort þau högnuðust mikið eða lítið og lítil fyrirtæki hafa alltaf greitt sömu skattprósentu og stór. Á árum áður var nokkuð mismunandi fyrirkomulag á skattlagningu eftir rekstrarformum en mjög hefur dregið úr því og snýr nú einkum að einstaklingsrekstri.

Vaxtagjöld ekki frádráttarbær

Við upptöku fjármagnstekjuskatts voru ýmis sjónarmið í gangi. Þannig var rætt um hvort skattleggja ætti einungis rauntekjur af fjármagni eða hvort bæta ætti verðbólguhagnaðinum við. Ennfremur var fjallað um hvort ætti að hafa sérstakt frítekjumark í skattinum þannig að lágar fjármagnstekjur yrðu ekki skattlagðar. Gallinn við bæði skatt eingöngu á rauntekjur og frítekjumark er sá að það kallar á mun hærri skattprósentu og eykur stórlega flækjustigið í skattinum. Þá var ákveðið að vaxtagjöld yrðu ekki frádráttarbær til þess að geta lækkað prósentuna og einfaldað skattinn. Mikið atriði við upptöku fjármagnstekjuskattsins var t.d. að einstaklingar gætu almennt séð haldið áfram að telja fram sjálfir en þyrftu ekki að leita til sérfræðinga til þess að geta talið rétt fram. Þannig varð niðurstaðan sú að leggja áherslu á stóran og einfaldan skattstofn með verðbólguhagnaði inni og hafa ekkert frítekjumark þannig að skatturinn yrði eins ódýr í framkvæmd og mögulegt er og leggja alla áhersluna á lága skattprósentu.

Raunveruleg skattprósenta háð tekjum

Ein ástæðan fyrir því að það er ekki hægt að draga þá ályktun að mismunandi skattprósentur í tekjuskatti einstaklinga, tekjuskatti fyrirtækja og fjármagnstekjuskatti séu óréttlátar er að tekjuskattur einstaklinga hefur tekjujöfnunarhlutverk milli skattgreiðenda meðan hinir skattarnir hafa það ekki. Raunveruleg skattprósenta í tekjuskatti einstaklinga er ýmist lægri eða hærri en hinar skattprósenturnar allt eftir því hvað tekjur eru háar.