Minna atvinnuleysi vegna brottfluttra Íslendinga

Ætla má að atvinnuleysi væri mun meira eða í kringum ellefu prósent ef þúsundir Íslendinga hefðu ekki flúið land eftir hrun. Vinnumálastofnun hefur greitt um fimmtíu milljarða í atvinnuleysisbætur á síðastliðnum tveimur árum. Þetta kemur fram í fréttaskýringu fréttastofu Stöðvar 2 um vinnumarkaðinn.

Í umfjöllun á Vísi segir m.a.:

"Aldrei hafa jafn margir flutt af landi brott eins og á síðastliðnum tveimur árum. Brottfluttir umfram aðflutta voru tæplega sjö þúsund samkvæmt tölum hagstofunnar, þar af um sex þúsund manns á vinnualdri.

Ástandið á vinnumarkaði hér heima hefur verið erfitt eftir að kreppan skall á og því hafi margir kosið að flytja til útlanda í leit að vinnu. Ætla má að atvinnuleysi væri mun meira ef ekki hefði komið til þessa.

Atvinnuleysis mældist átta prósent í síðasta mánuði sem jafngildir því að um 12.745 hafi verið án vinnu. Ef hins vegar þessir sex þúsund sem fluttu til útlanda hefðu allir lent á atvinnuleysisskrá hefði atvinnuleysi mælst rúmlega ellefu prósent.

Vinnumálastofnun hefur ekki skoðað sérstaklega áhrif búferlaflutninga á atvinnuleysistölur. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði hins vegar í samtali við fréttastofu að færri væru á atvinnuleysisskrá vegna þessa.

Hvert prósentustig í atvinnuleysi kostar ríkissjóð á bilinu tvo til þrjá milljarða á ári.

Á síðustu tveimur árum hefur vinnumálastofnun greitt tæpa fimmtíu milljarða í atvinnuleysisbætur. Á þessu ári er áætlað að stofnunin greiði um tuttugu og einn milljarð í bætur."

Hægt er að horfa á umfjöllun Stöðvar 2 á vef Vísis:

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ HORFA