Mikilvægur tími framundan

Samtök atvinnulífsins hafa að undanförnu kynnt stefnu sína í þeirri lotu kjarasamninga sem nú er hafin. Markmiðið er að launahækkanir verði hóflegar og sambærilegar fyrir alla hópa á vinnumarkaði. SA stefna að þriggja ára samningi sem er lágmarks samningstími til þess að skapa raunhæfar væntingar um stöðugleika á vinnumarkaðnum og þar með grundvöll fyrir fyrirtæki að taka ákvarðanir um fjárfestingar og um ný störf.

Samræmd launastefna þarf að gilda fyrir allan vinnumarkaðinn, jafnt almenna markaðinn sem hinn opinbera. Það er þokkalega gott jafnvægi milli almenna markaðarins og hins opinbera þannig að ekki þarf að byrja á löngum samtölum um hver eigi hvað inni. Það á að vera hægt að horfa eingöngu til framtíðar og hvernig hefja eigi nýja sókn til að endurheimta fyrri styrk atvinnulífsins og lífskjör fólks um leið.

Samræmd launastefna þýðir ekki einn samning fyrir allan vinnumarkaðinn eða að allir samningar þurfi að vera nákvæmlega eins. Samræmd launastefna þýðir ekki heldur að einstakir aðilar afsali sér samningsrétti eða fari í samflot frekar en þeir kjósa sjálfir.  Samræmd launastefna þýðir fyrst og fremst að launakostnaðarhækkanir verði eins í heildina yfir þriggja ára tímabil og að samningar hafi sama upphafspunkt og endapunkt. Einstaka samninga má hins vegar útfæra mismunandi, t.d. tímasetningar hækkana eða einstakar áherslur.  Launakostnaðarhækkanir geta hins vegar ekki verið mismunandi fyrir einstaka hópa og aðferðir sem notaðar eru á einum stað mega ekki skapa ómöguleika annars staðar. Þess vegna verða allir aðilar að kjarasamningunum að vera tilbúnir til að vinna með opnum og gegnsæjum hætti.

Samtök atvinnulífsins hafa óskað eftir víðtæku samráði á vinnumarkaðnum til þess að móta slíka samræmda launastefnu. Eftir því sem samráðið er víðtækara eru meiri líkur á því að árangur náist og að samstaða náist á vinnumarkaðnum. 

Þegar hafa komið fram ljón á veginum. Starfsgreinasambandið, sem kemur fram fyrir aðildarfélögin á landsbyggðinni, hefur t.d. lagt fram kröfugerð sem er að mörgu leyti óraunhæf og ólíkleg til að leiða til víðtækrar sáttar á vinnumarkaðnum.  Í síðustu kjarasamningum hækkuðu lægstu laun og lægstu kauptaxtar langt umfram laun millitekjufólks og þeirra hærra launuðu. Kaupmáttur lægstu  launa var varinn í kreppunni. Því þarf að horfa til þess að hækka kaupmátt launa almennt, ella eykst misvægið á vinnumarkaðnum. Hækkanir lægri kauptaxta munu ganga yfir allt taxtakerfið vegna þess að þeir eru ekki einangrað fyrirbæri, heldur grunnur sem mörg launakerfi hvíla á. Þau breytast samhliða lægstu launum þrátt fyrir að laun í þessum launakerfum séu mun hærri. Mikil hækkun lægstu kauptaxta í kjarasamningunum í febrúar 2008 gekk á þann hátt yfir til marga hærra launaða hópa.

Samtök opinberra starfsmanna hafa gefið út óljósar yfirlýsingar um vilja til samstarfs um samræmda launastefnu. Ljóst er að svigrúm ríkis og sveitarfélaga til launahækkana er nánast ekkert. Nægir þar að líta til áætlana sem fyrir liggja um fjármál þessara aðila á næsta ári og þarnæstu árum.  Einstök félög opinberra starfsmanna hafa flest verið treg að sameinast um samninga á vettvangi heildarsamtaka sinna og það flækir stöðuna enn meir. Þó er nokkuð augljóst að ríkið eða sveitarfélögin geta ekki samið um fjölbreytta útgáfu af launakostnaðarhækkunum heldur verður niðurstaðan óhjákvæmilega samræmd. 

Gera má ráð fyrir því að á næstu vikum reyni á hvort samstaða næst á vettvangi SA og ASÍ um samræmda launastefnu á almenna vinnumarkaðnum en að aðilar opinbera vinnumarkaðarins verði þá á hliðarlínunni á meðan.

Á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins byrja af alvöru að glíma við að koma saman kjarasamningum þarf líka að leita eftir aðkomu ríkisstjórnar og Alþingis að þeim málum sem nauðsynlegt er að fá lausn á til þess að skapa grundvöll fyrir samningum til lengri tíma.

Skynsamlegir kjarasamningar til þriggja ára og aðkoma stjórnvalda hafa eitt og sama markmið. Að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar og ný störf í atvinnulífinu. Sóknarfærin í atvinnulífinu og möguleikarnir til þess að bæta kjörin verða að koma í gegnum auknar fjárfestingar, fyrst og fremst í útflutningsgreinum.  Neysludrifinn hagvöxtur með nýju ójafnvægi og skuldasöfnun erlendis er ekki leiðin til árangurs.   

SA hafa sett fram margvíslegar tillögur um mál sem þarf að leysa til þess að ný sókn og nýjar fjárfestingar verði að veruleika. Þær snúa að stóru fjárfestingarverkefnunum sem nú eru í hægagangi, gjaldeyrishöftum, vaxtamálum, fjármálamarkaði, skattamálum, sjávarútvegi, lífeyrismálum, atvinnuleysistryggingum, starfsendurhæfingu, ferðamálum og menntamálum svo eitthvað sé nefnt.

Þessi mál munu fá aukinn þunga eftir því sem kjaraviðræðunum miðar fram.  Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa lýst vilja sínum til þess að vinna með aðilum vinnumarkaðarins sem er mjög mikilvægt.  En það verður að víkka samstarfið þannig að Alþingi verði ennfremur beinn þátttakandi og að mál verði leyst með afgreiðslu lagafrumvarpa eftir því sem við á.

Fréttir af gangi mála á vinnumarkaðnum munu án efa verða fyrirferðarmiklar á næstu mánuðum. Samtök atvinnulífsins eru vel undirbúin fyrir kjarasamningana og góð samstaða er um markmið og leiðir. Samningsgerðin og samskipti við ríkistjórn og Alþingi verða hins vegar flókin viðfangsefni. Miklu skiptir að vel takist til og SA munu ekki ganga frá þeirri vinnu fyrr en fullnægjandi árangur hefur náðst.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA í desember 2010..