Mikilvægt að vera þátttakandi í samfélaginu og vinna

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk - starfsendurhæfingasjóðs, segir hættu á því að fólk einangrist stundi það ekki ekki vinnu en undanfarið hefur verið töluvert fjallað um að hvati til vinnu sé orðinn of lítill vegna þess hversu litlu muni á lágmarkslaunum og bótum.  Vigdís segir í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að það sé mikilvægt fyrir fólk að vera þátttakandur á vinnumarkaði og ekki megi gleyma því að þar fái fólk tækifæri til að vinna sig upp og bæta sinn hag. Fólk missi af þeim tækifærum ef það taki ekki þátt.

Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð af Alþýðusambandi

Íslands og Samtökum atvinnulífsins í maí 2008. Hlutverk Starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum. Sjóðurinn skipuleggur ráðgjöf og þjónustu fyrir starfsmenn sem veikjast til lengri tíma eða slasast þannig að vinnugeta skerðist og er stefnt að því að viðhlítandi þjónusta sé veitt sem allra fyrst í samstarfi við sjúkrasjóði verkalýðsfélaga og atvinnurekendur. Áhersla er lögð á getu einstaklinga til að sjá sér farborða í stað vangetu.

Vigdís segir í frétt Stöðvar 2 að það sé til mikils að vinna fyrir fólk að komast aftur inn á vinnumarkaðinn eftir hlé frá störfum.  "Það er mjög verðmætt að taka þátt í vinnumarkaðnum og það skiptir einstakling miklu máli að vera virkur og geta séð sjálfum sér farborða."

Vigdís segir að fleiri mættu leita til sjóðsins til að fá ráðgjöf og aðstoð við stíga aftur út á vinnumarkaðinn. Reynsla hennar sé sú að atvinnurekendur séu sveiganlegir við starfsfólk sem það þekki og jafnvel tilbúnir að hliðra til fyrir það. Skiljanlega séu vinnuveitendur þó ekki tilbúnir að sýna jafn mikinn sveiganleika gagnvart fólki sem það þekki ekki. "Það er samfélagslega mikilvægt fyrir okkur öll að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur að þessu leyti og sé tilbúinn að taka við fólki með mismunandi mikla starfsgetu."

Á vef Starfsendurhæfingarsjóðs - www.virk.is - er að finna fjölmargar jákvæðar sögur af fólki sem hefur nýtt sér þjónustu sjóðsins og snúið aftur til vinnu eftir erfiðleika.

Sjá nánar:

Horfa á frétt Stöðvar 2

Vefur Starfsendurhæfingarsjóðs