Mikilvægt að skipuleggja smitvarnir vegna inflúensu

Mikilvægt er íslensk fyrirtæki skipuleggi smitvarnir til að draga úr útbreiðslu inflúensu A(H1N1)v (svínainflúensu) enda geta markvissar forvarnir dregið verulega úr tjóni þjóðfélagsins af völdum inflúensunnar. Gert er ráð fyrir að inflúensan nái sér aftur á strik þegar vetur gengur í garð í Evrópu. Starfsemi sumra fyrirtækja getur raskast verulega ef miklar fjarvistir verða og er mælt með því að gerð sé áætlun um hvernig haga skuli starfseminni við slíkar aðstæður.

Mikill viðbúnaður vegna svínainflúensu skýrist fyrst og fremst af þeim mikla fjölda einstaklinga sem mun smitast af flensunni með tilheyrandi fjarvistum frá vinnu. Bólusetning mun fyrst um sinn einungis bjóðast tilteknum hópum og því verða aðrir að sýna aðgát og huga að smitvörnum. Fræðsla og skýr fyrirmæli um smitvarnir getur dregið verulega úr áhrifum flensunnar hjá viðkomandi fyrirtækjum.

Upplýsingar um inflúensu A(H1N1)v, smitleiðir og smitvarnir, má nálgast á vef sóttvarnarlæknis www.influensa.is. Þar er einnig að finna gátlista um órofinn rekstur fyrirtækja í inflúensufaraldri. Ýmsir sérfróðir aðilar veita ráðgjöf á þessu sviði, m.a. Heilsuvernd.

Á vef sóttvarnarlæknis kemur m.a. fram að veiran getur borist við hósta eða hnerra á snertifleti í nánasta umhverfi inflúensusjúklings eða sjúklingurinn mengað þá með því að snerta þá með höndunum ef hann hefur ekki þvegið þær með vatni eða handspritti. Dæmi um algenga snertifleti á vinnustöðum eru hurðarhúnar, borðplötur, ljósritunarvélar, kaffikönnur og áhöld í mötuneyti . Rannsóknir benda til að inflúensuveiran geti lifað og smitað fólk í 2-8 klst. eftir að hún lendir á yfirborðinu.

Mælt er með því að fyrirtæki upplýsi starfsmenn sína um mikilvægi smitvarna með áherslu á handþvott eða notkun handspritts. 

Tveir dagar heima án hita
Sóttvarnarlæknir mælir  nú með því að einstaklingar, sem taldir eru smitaðir af völdum svínainflúensu, haldi sig heima í tvo daga eftir að þeir verða hitalausir. Er hér um að ræða breytingu frá fyrri tilmælum sem gerðu ráð fyrir að einstaklingur skyldi halda sig heima í 7 daga frá upphafi veikinda.

Sjá nánar:

www.influensa.is

Gátlisti fyrirtækja vegna inflúensufaraldurs (PDF)

Vefur Heilsuverndar