Mikilvægt að ná aftur stöðugleika

Kristín Guðmundsdóttir, forstjóri Skipta, sagði á fundi SA um atvinnuleiðina langmikilvægast að ná aftur stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi. Það yrði best gert með samningum um hóflegar launahækkanir til þriggja ára til að ná aftur fyrri styrk. Skipti er móðurfélag Símans en Kristín sagði símreikninga bera nú með sér að neysla landsmanna hafi dregist hratt saman frá síðasta hausti.

Í erindi sínu sagði Krístín m.a.:

"Nú þegar við stöndum frammi fyrir gerð kjarasamninga  er nauðsynlegt að skoða stöðu fyrirtækja á neytendamarkaði með tilliti til þess hvernig hrunið hefur haft áhrif á þau. Það er að mínu mati sameiginlegur vilji atvinnurekenda og launafólks að kaupmáttur aukist eftir því sem hagur fyrirtækjanna vænkast. Það er hins vegar engum greiði gerður að ganga til kjarasamninga sem engin innistæða er fyrir."

Ennfremur sagði Kristín að snöggar hækkanir launa kalli á aukna verðbólgu með tilheyrandi vandræðum fyrir íslensk heimili.

 "Eftir áföll undanfarinna ára þá höfum við sem samfélag ekki efni á enn einu verðbólguskotinu. Skuldir heimila og fyrirtækja þola það ekki. Við verðum þess vegna að haga samningum þannig að verðbólgan fari ekki á flug."

Sjá nánar: 

Erindi Kristínar má lesa í heild hér

Tengt efni:

Umfjöllun mbl.is