Mikilvægi útflutningsgreina fyrir Ísland

Ísland hefur verið á hraðri leið til þess sem kallað hefur verið þekkingar- eða þjónustusamfélag á liðnum áratug en hlutfall útflutnings af landsframleiðslu er lágt í samanburði við önnur smáríki, t.d. Norðurlönd. Þetta er meðal þess sem kemur fram í lokaritgerð Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar frá Háskólanum á Bifröst, en helstu niðurstöður hennar voru kynntar á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins. Þar kemur m.a. fram að hátt hlutfall útflutnings af landsframleiðslu sé mikilvægt litlum hagkerfum á borð við Íslands en það stefni í fram til ársins 2015 að þjónustuútflutningur verði orðinn meiri en vöruútflutningur. Útlit sé fyrir að sjávarútvegur og álframleiðsla muni þá standa undir 45% af heildarútflutningi en nota aðeins um 5% af mannaflanum. Sýnt er fram á að mikil framleiðniaukning í sjávarútvegi og framleiðsluiðnaði hafi skapað rými fyrir nýjar greinar og hún ásamt stóraukningu í háskólamenntun og aðgengi að erlendu vinnuafli hafi á fáum árum gjörbylt íslenskum vinnumarkaði.

Hraður vöxtur næsta áratuginn?

Ritgerðin ber nafnið Frá höndum til hugar - breytingar í íslensku atvinnulífi 1995 - 2005, möguleg þróun til 2015. Í ritgerðinni er fjallað um þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í íslensku atvinnulífi 1995 - 2005. Í ritgerðinni er sýnt hver sé líkleg þróun varðandi skiptingu vinnuaflsins, launaþróunar o.fl. ef hagvöxtur verður svipaður 2005 - 2015 og hann var 1995 - 2005. Þá er mikilvægi útflutnings kannað með sérstakri áherslu á lítil hagkerfi. Meðal landa sem Ísland er borið saman við eru Írland og Lúxemborg sem dæmi um lítil hraðvaxta hagkerfi. Meðalvöxtur landsframleiðslu í þessum löndum var 5,7% og 4,9% á árunum 1985-2005. Hagvöxtur á Íslandi var 3,1% á sama tíma en á fundinum spurði Jóhannes Geir hvort Ísland ætti eftir seinni áratuginn af samfelldum vexti? Ef svo væri vöknuðu ýmsar spurningar um hvernig Seðlabanki Íslands myndi bregðast við slíkum vexti með stýrivexti sína jafn háa og raun ber vitni. Mikilvægt væri að stuðla að hagstæðum skilyrðum fyrir útflutningsgreinar því vöxtur þeirra er forsenda áframhaldandi vaxtar.

 Jóhannes Geir

Mikil framleiðniaukning með nýrri þekkingu

Í rannsókn Jóhannesar er fjallað um hvernig tekist hafi að ná fram aukinni framleiðni í hefðbundnum framleiðslugreinum með því að nota nýjustu upplýsingatækni samhliða hefðbundnum aðferðum. Tekin eru tvö dæmi af fiskvinnslu Samherja á Dalvík og kjötvinnslu Norðlenska á Akureyri og Húsavík en þar náðist mikil framleiðniaukning vinnuafls sem skilaði allt að fjórföldum afköstum á tímaeiningu á einstökum sviðum starfseminnar! Á því tímabili sem rannsóknin nær til urðu jafnframt vatnaskil á landsbyggðinni því þá unnu fleiri við þjónustu en framleiðslu á landsbyggðinni.

Ritgerðin er lokaritgerð í framhaldsnámi í viðskiptum sem er 45 eininga nám sem samsvarar MA námi í hag- og viðskiptatengdum greinum.

Sjá nánar:

Frá höndum til hugar (PDF)

 

Kynning frá morgunfundi SA (PPT)