Mikilvægasta verkefnið

Eitt mikilvægasta verkefni íslensku þjóðarinnar er að koma atvinnulífinu í gang þannig að fyrirtækin geti farið að fjárfesta á ný og skapa störf. Til að svo geti orðið þurfa stjórnvöld að tryggja eftir föngum stöðugleika í efnahagsmálum og stilla í hóf skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga þannig að hún letji ekki til fjárfestinga og sparnaðar. Þá mega  almenn starfs- og rekstrarskilyrði atvinnugreina til langs tíma ekki vera síðri en erlendra fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Þetta segir Halldór Árnason, hagfræðingur hjá SA, m.a. í grein í Viðskiptablaðinu sem kom út  í dag.

Í greininni segir Halldór mikið atvinnuleysi vera áhyggjuefni:

"Þrátt fyrir verulegan árangur í að ná niður verðbólgu, vöxtum og halla á rekstri hins opinbera þá er fjárfesting enn í sögulegu lágmarki, hagvöxtur lítill sem enginn og atvinnuleysi að festast við 8-9% af vinnuafli. Það er áhyggjuefni að svo virðist  sem barátta gegn atvinnuleysi sé ekki forgangsmál og að landsmenn séu dofnir fyrir þeirri staðreynd að nær 15.000 manns eru án vinnu. Þessu verður að breyta hið fyrsta. Kaupmáttaraukning kemur með því að fólk fái vinnu í stað þess að þurfa að vera á atvinnuleysisbótum, starfshlutföll aukast og vinnutími lengist.

Aukinn hagvöxtur lykilatriði

Sama gildir um jöfnuð í ríkisfjármálum. Honum verður ekki náð á næstu árum með skattahækkunum eða útgjaldalækkun einum saman, heldur með auknum hagvexti. Því þarf að einfalda skattkerfið og gera það hagkvæmt, t.d. með því að breikka tekjustofna og lækka skatthlutföll. Þannig má draga úr skattheimtunni og gefa atvinnulífi og einstaklingum svigrúm til nauðsynlegra fjárfestinga og atvinnusköpunar en það mun fljótt leiða til aukinna skatttekna og minni bótagreiðslna hins opinbera. Einnig er mikilvægt að laða hingað til lands erlenda fjárfesta sem eru tilbúnir til að leggja fram áhættufé til að byggja upp nýja atvinnustarfsemi sem mun fjölga störfum, daga úr atvinnuleysi og örva hagvöxt.

Skýrar leikreglur nauðsynlegar

Miklu skiptir að starfsskilyrði þeirra atvinnugreina sem stunda sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda séu skýr. Stjórnvöld verða að eyða lagalegri og stjórnmálalegri óvissu vegna fjárfestinga í orkufyrirtækjum og marka samræmda stefnu um hóflegt afgjald í ríkissjóð fyrir nýtingarrétt á auðlindum í eigu ríkis eða þjóðar. Ríkisstjórnin verður einnig að fylgja eftir niðurstöðum eigin endurskoðunarnefndar um stjórn fiskveiða sem náði víðtæku samkomulagi um grundvallarbreytingu á stjórnkerfinu með aðild stjórnarflokkanna, tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna og allra helstu hagsmunasamtaka sjávarútvegsins, bæði fyrirtækja og starfsfólks. Samkomulagið, hin svokallaða samningaleið, byggir á því að nýtendur auðlindarinnar geri formlega tímabundna samninga við ríkið sem hefur forræði á fiskistofnunum um nýtingarréttinn. Þetta samkomulag ber að útfæra nánar og lögfesta til að tryggja starfsskilyrði í sjávarútvegi og fiskvinnslu og tryggja skynsamlega og hagkvæma nýtingu sjávarauðlinda.

Höftum verði aflétt

Loks þarf að afnema gjaldeyrishöftin sem allra fyrst. Höftin  valda ómældum skaða með því að takmarka sóknarmöguleika íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði og beinlínis hvetja til þess að starfsemi verði flutt út fyrir landsteinana. Um leið virka þau sem varnarmúr fyrir fjárfestingar hérlendis, bæði gagnvart innlendum og erlendum aðilum. Það þarf með markvissum hætti að létta af þrýstingi af gjaldmiðlinum svo unnt verði að aflétta höftunum. 

Takist ekki að skapa ný störf, koma á hagvexti og aflétta gjaldeyrishöftum á næstu misserum er hætta á að velmenntaðir Íslendingar finni sér ekki störf við hæfi hér á landi og ílengist í útlöndum."

Viðskiptablaðið má lesa á www.vb.is