Efnahagsmál - 

17. maí 2010

Mikilvæg fjárfesting Magma Energy í HS Orku

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Mikilvæg fjárfesting Magma Energy í HS Orku

Samtök atvinnulífsins fagna samkomulagi um kaup Magma Energy á stórum hlut í HS Orku. Með samkomulaginu hefur sterkt erlent fyrirtæki eignast ráðandi hlut í HS Orku og jafnframt lýst yfir áformum um að standa að öflugri uppbyggingu jarðvarmavirkjana hér á landi. Sérstaklega mun þetta gefa HS Orku tækifæri til að halda áfram á fullum krafti uppbyggingu Reykjanesvirkjunar ásamt frekari rannsóknum á svæðinu.

Samtök atvinnulífsins fagna samkomulagi um kaup Magma Energy á stórum hlut í HS Orku. Með samkomulaginu hefur sterkt erlent fyrirtæki eignast ráðandi hlut í HS Orku og jafnframt lýst yfir áformum um að standa að öflugri uppbyggingu jarðvarmavirkjana hér á landi. Sérstaklega mun þetta gefa HS Orku tækifæri til að halda áfram á fullum krafti  uppbyggingu Reykjanesvirkjunar ásamt frekari rannsóknum á svæðinu.

Magma Energy hefur jafnframt lýst því yfir að starfsemin hér  á landi verði rekin með langtímahagsmuni allra hlutaðaeigandi að leiðarljósi. Fjárfesting þessi er mikilvæg í ljósi mikils atvinnuleysis og hægagangs við stórar fjárfestingar að undanförnu. Með henni er vonast til að framkvæmdir til nýtingar orkunnar geti einnig öðlast byr undir báða vængi.

Eignarhald á orkulindunum verður áfram í höndum sveitarfélaga á svæðinu enda er  bæði ríki og sveitarfélögum óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt að jarðhita og grunnvatni, samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. HS orka hefur hins vegar gert langtímasamning um nýtingu orkulinda á svæðinu og greiðir gjald fyrir til eigenda orkulindanna.

Það er sérstaklega ánægjulegt að erlendir fjárfestar skuli nú með beinum hætti koma að uppbyggingu og rekstri orkuvera hér á landi en hingað til hafa erlendir fjárfestar fyrst og fremst innheimt tekjur af íslenskum orkufyrirtækjum með lánveitingum ásamt tilheyrandi vöxtum.

Samtök atvinnulífsins