Mikill hagnaður lífeyrissjóða af íslenskum fjármálafyrirtækjum

Áætla má að ávöxtun lífeyrissjóðanna af eignum þeirra í íslenskum fjármálafyrirtækjum á síðustu 10 árum nemi um 160 milljörðum króna. Heildarsjóðfélagar íslenskra lífeyrissjóða eru 180 þúsund og hefur vöxtur íslenskra fjármálafyrirtækja því aukið meðaleign hvers sjóðfélaga um 900 þúsund krónur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka fjármálafyrirtækja um fjármálastarfsemi á Íslandi sem lögð var fram á fyrsta aðalfundi samtakanna.

Sókn á öllum sviðum

Aðalfundur SFF fór fram í Borgarleikhúsinu 26. apríl samhliða ráðstefnu á SFF deginum. Bjarni Ármannsson, formaður SFF, sagði þar í ávarpi að fjármálaþjónusta væri einn helsti drifkraftur efnahagslífsins á Íslandi um þessar mundir. "Fjármálastarfsemi er sú atvinnugrein sem um þessar mundir vex hraðast, stendur undir mestu framboði af hálaunuðum sérfræðistörfum og greiðir hæstu skattana í ríkissjóð. Þetta á við hvar sem við litumst um í Evrópu, Ameríku, Asíu og Ástralíu. Bandaríkin og Bretland hafa leitt þessa þróun um tveggja alda skeið. Ef á hinn bóginn aðeins er litið um öxl til síðustu tíu ára, þá eru það eyjarskeggjar í útnorðri sem hafa gert betur en flestar ef ekki allar þjóðir í þessu efni. Í samanburðartölum OECD má sjá að Ísland er óðfluga að nálgast toppinn þegar borið er saman framlag fjármálastarfsemi til landsframleiðslu í einstökum ríkjum"

Framlag fjármálageirans til landsframleiðslu í nokkrum ríkjum 2004 

SFF graf

Bjarni sagði ennfremur mikilvægt að gott samstarf takist við stjórnvöld og almenning um hagstæð starfsskilyrði fyrir fjármálastarfsemi hér á landi til að fjármálamarkaðurinn haldi áfram að vaxa og dafna og stuðla að framförum og velsæld.

Sjá nánar skýrslu SFF: Fjármálafyrirtæki: Sókn á öllum sviðum