Mikill áhugi á fundi Litla Íslands um fjármögnun lítilla fyrirtækja

Fullt var út úr dyrum á fundi Litla Íslands um fjármögnun lítilla fyrirtækja sem fram fór í morgun í Húsi atvinnulífsins. Fulltrúar frá Arion banka, Íslandsbanka, Landsbanka og MP banka fóru þar yfir þjónustu sem sniðin er að litlum fyrirtækjum. Fundurinn er liður í fundaröð Litla Íslands sem stendur fram til vors. Litla Ísland hefur bent á að stóra lausnin í atvinnumálum þjóðarinnar sé smá - en lítil fyrirtæki hafa hug á að skapa allt að 14.000 ný störf á næstu 3-5 árum samkvæmt könnun sem gerð var fyrir Samtök atvinnulífsins. Ljóst er að fjármálafyrirtæki munu gegna mikilvægu hlutverki til að þessi sýn verði að veruleika.

Litla Ísland þakkar þeim fjölmörgu sem mættu til fundarins. Frummælendur voru Björn Sveinsson útibússtjóri Íslandsbanka á Kirkjusandi, Hrönn Greipsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjaþjónustu Arion banka, Kristján Einarsson, forstöðumaður viðskiptaþjónustu MP banka og Þorsteinn Stefánsson, forstöðumaður fyrirtækjamiðstöðvar Landsbankans.

Auk þess að ræða þá þjónustu sem bankarnir veita svöruðu frummælendur fjölmörgum spurningum fundarmanna og hvöttu þá til að líta í heimsókn í næsta útibú til að sjá hvað er í boði fyrir lítil fyrirtæki. Þau þökkuðu jafnframt ábendingar frá fulltrúum litlu fyrirtækjanna í salnum um það sem mætti betur fara að þeirra mati.

Glærur og gögn frummælenda má nálgast hér að neðan:

Björn Sveinsson útibússtjóri Íslandsbanka á Kirkjusandi - glærur

Hrönn Greipsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjaþjónustu Arion banka - glærur og myndbönd

Kristján Einarsson, forstöðumaður viðskiptaþjónustu MP banka - myndband

Þorsteinn Stefánsson, forstöðumaður fyrirtækjamiðstöðvar Landsbankans - glærur

Næsti fundur Litla Íslands verður haldinn í Kviku í Húsi atvinnulífsins, föstudaginn 11. apríl kl. 9-10. Fundarefni verður tilkynnt þegar nær dregur.

Litla Ísland er vettvangur þar sem smá fyrirtæki (1-50 starfmenn) vinna saman óháð atvinnugreinum. Litla Ísland var stofnað á Smáþingi 10. október 2013. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar litla Íslands.

Litla Ísland er á Facebook

Stefnumót

Tengt efni:

Umfjöllun VB - Sjónvarps