Mikil hækkun launa þrátt fyrir fjölgun erlendra starfsmanna

Samkvæmt launakönnun Hagstofunnar hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 17% að meðaltali frá upphafi ársins 2005 til loka ársins 2006. Sú starfsstétt sem hækkaði mest var verkafólk, um 19%, en erlendir starfsmenn eru fjölmennastir í þeirri starfsstétt. Laun í byggingariðnaði, en í þeirri atvinnugrein eru erlendir starfsmenn fjömennastir, hækkuðu um 17%, eða um það sama og meðaltal allra.

 

Laun hafa hækkað meira á Íslandi en í nálægum ríkjum

Eftirspurn eftir starfsfólki umfram framboð hefur leitt til mikilla launahækkana á Íslandi undanfarin ár. Á árunum 2004-2006 voru launahækkanir meiri en í nokkru öðru aðildarríki OECD og þrefalt meiri en að meðaltali í þessum ríkjum. Staðhæfingar um að erlendir starfsmenn hafi leitt til lækkunar launa eru því úr lausi lofti gripnar.

Fjallað verður ítarlega um erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði á morgunverðarfundi SA sem hefst kl. 8:30 á Grand Hótel Reykjavík.