Mikið traust til íslenskra fyrirtækja

Íslendingar eru mjög jákvæðir í garð íslenskra fyrirtækja og traust þeirra til eigin vinnuveitanda skorar einna hæst í árlegum mælingum Capacent Gallup á trausti til stofnana og embætta. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir SA. Nærri 88% eru jákvæð gagnvart sínum vinnustað - aðeins rúm 4% neikvæð. Þá bera yfir 81% Íslendinga mikið traust til síns vinnuveitanda en aðeins tæp 7% bera til hans lítið traust.

Niðurstöðurnar eru uppörvandi og sýna að þrátt fyrir áföll í atvinnulífinu og mjög neikvæða umræðu á köflum ber almenningur mikið traust til íslenskra fyrirtækja og er jákvætt í garð atvinnurekstrar. Ímynd atvinnulífsins er því fjarri því að vera eins sködduð og talið hefur verið og eru fyrirtækin sá hluti innviða landsins sem fólk treystir í uppbyggingarstarfinu framundan. Á þessum grunni er mikilvægt að byggja við endurreisn atvinnulífsins.

Þjóðarpúls Gallup birti nýverið traust Íslendinga til stofnana landsins og ef traust fólks til eigin vinnuveitanda er borið saman við traust fólks á ýmsum stofnunum kemur í ljós að traustið er mjög mikið.

Traust til vinnuveitanda

Auk þess að spyrja um viðhorf fólks til eigin vinnuveitanda var spurt um ímynd íslenskra fyrirtækja og minnkaði þá  jákvæðni fólks örlítið en 72,5% Íslendinga eru jákvæðir í garð íslenskra fyrirtækja - aðeins 9,4% eru neikvæð. Jákvæðni fólks mælist mest úti á landi en minnst í Reykjavík en lítill munur greinist á milli hópa, hvort sem greint var eftir kynjum, aldri, svæðum, starfsstéttum eða tekjum - almennt er fólk mjög jákvætt í garð atvinnulífsins.

Viðhorf til íslenskra fyrirtækja

Könnun Capacent fór fram dagana 17.-25. febrúar í síma og á neti. Alls voru 1.819 í  úrtaki og var svarhlutfall 64,2%.