Menntun fyrir hvern?
Edda Lilja Sveinsdóttir, sviðsstjóri verkfræðisviðs Actavis,
velti fyrir sér menntun á aðalfundi SA 2012 og spurði fyrir hvern
hún væri? Edda Lilja sagði skoðanir sínar fyrst og fremst byggðar á
fyrri störfum hennar í menntamálaráðuneytinu og Orkuskólanum REYST
- þær væru hennar eigin - en ljóst væri að breyta þurfi
menntakerfinu. Menntun sé fyrir okkur öll, menntastofnanir séu ekki
til án atvinnulífsins og atvinnulífið þurfi á menntuðu starfsfólki
að halda. Edda Lilja tók undir tillögur SA í menntamálum sem voru
lagðar fram á fundinum en sagði jafnframt ljóst að ekki þurfi
fleiri skýrslur, úttektir eða álitsgerðir. Það liggi fyrir hvað
þurfi að gera og mikilvægt sé að koma sér að verki! Fjölga þurfi
útskrifuðu fólki með verk- og tæknimenntun og auka vægi raungreina
í kennaramenntun.

Edda Lilja varpaði fram þeirri hugmynd á fundinum að stofnaður
yrði sérstakur Raungreinakennaraháskóli til að efla
raungreinakennslu. Þangað myndu þeir sækja sem hefðu sérstakan
áhuga á raungreinum alveg eins og þeir sem hafi áhuga á að kenna
íþróttir sæki sitt nám í íþróttakennaraháskólann.
Þá fjallaði Edda Lilja um tengs háskóla og atvinnulífsins sem hún
sagði mikilvægt að bæta. Hún sagði reyndar hafa brunnið við að alið
væri á tortryggni innan skólanna í garð þeirra sem vinni að
framfaramálum með fyrirtækjum. Þessum viðhorfum þurfi að breyta.
Viðmiðum skólanna þurfi einnig að breyta en háskólakerfið sé m.a.
drifið áfram af birtingum skrifaðra greina og bóka og tilvitnunum
annarra í þær.
Edda Lilja sagði að auka þurfi hvata í starfi háskólanna og binda
fjárveitingar til þeirra nýjum mælikvörðum. Það sé krafa
atvinnulífsins að skólarnir fari í raunverulegt samstarf með
fyrirtækum sem geti skilað miklu. Stjórnvöld ráði fjárveitingum til
háskóla og geti - ef vilji er fyrir hendi - bundið þær mælikvörðum
sem gagnist atvinnulífinu.
Tengt efni: