Menntadagur atvinnulífsins 3. mars 2014 (1)

Samtök atvinnulífsins ásamt SVÞ, SAF, SF, LÍÚ, SFF, SI, og Samorku og efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 13-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra. Á menntadeginum munu forsvarsmenn fjölbreyttra fyrirtækja fjalla um mikilvægi menntunar starfsfólks og nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu. Greint verður frá niðurstöðum nýrrar könnun um viðhorf framhaldsskólanema á Íslandi til bóknáms og verknáms.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér (PDF)

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG

Sérstakur gestur Menntadags atvinnulífsins er Dr. Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD. Mikill fengur er að komu hans til landsins en Schleicher er sérstakur ráðgjafi Angel Gurría, framkvæmdastjóra OECD,á sviði stefnumótunar í menntamálum.

Dr. Andreas Schleicher hefur góða yfirsýn yfir verkefni OECD um samspil hæfni, menntunar og samkeppnishæfni þjóða. Þar má t.d. nefna PISA-könnunina sem metur hæfni 15 ára grunnskólanemenda út um allan heim - hversu vel nemendur við lok grunnskóla hafa tileinkað sér þá þekkingu og hæfni sem þeir þurfa á að halda í nútíma samfélagi. Einnig PIAAC sem kannar hæfni starfsfólks á vinnumarkaði (OECD Survey of Adult Skills). Hér má sjá stutt myndskeið frá OECD um niðurstöður þeirrar könnunar.

Á menntadeginum verða Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrsta sinn til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins og fjögur fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntasproti ársins. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun tilkynna um sigurvegara á menntadeginum og afhenda verðlaun í hvorum flokki fyrir sig.

Eftirfarandi fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014:

Isavia
Landsbankinn
Rio Tinto Alcan á Ísland
Samskip

Tilnefnd fyrirtæki leggja öll áherslu á mikilvægi menntunar og hafa skýra mennta-og fræðslustefnu sem er fylgt eftir. Við mat á tilnefningum voru gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækjanna og aukið samkeppnishæfni þeirra.

Eftirfarandi fyrirtæki eru tilnefnd sem Menntasproti ársins 2014:

Codland
Landsnet
Leikskólinn Sjáland
Nordic Visitor


Tilnefnd fyrirtæki hafa öll í rekstri sínum lagt aukna áherslu á fræðslu- og menntamál. Við mat á tilnefningum var skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækjanna og þátttöku starfsmanna í fræðslustarfinu.

Ráðstefnustjóri er Eggert B. Guðmundsson, forstjóri N1.

Allir eru velkomnir og er ekkert þátttökugjald en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG