Meistarafélag byggingamanna á Suðurnesjum til liðs við SI og SA

Í dag voru undirritaðir samningar um aðild Meistarafélags byggingamanna á Suðurnesjum (MBS) að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI, Grétar I. Guðlaugsson, formaður MBS og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA skrifuðu undir samningana.

Meistarafélag byggingamanna á Suðurnesjum var stofnað 3. desember árið 1971. Félagsmenn eru 45 talsins og koma úr öllum greinum byggingariðnaðarins.

Samtökin fagna þessum góða liðsauka og vænta mikils af auknum styrk og samtakamætti félaga í byggingariðnaði. Með aðild MBS er lagður grunnur að enn sterkari samtökum sem gæta hagsmuna íslensks byggingariðnaðar enda starfa nú nær öll samtök atvinnurekenda í byggingariðnaði sameinuð undir merkjum Samtaka iðnaðarins.