Meiri atvinnu - ekki meiri upphlaup

Samtök atvinnulífsins lýsa undrun sinni á því upphlaupi sem orðið hefur innan stuðningsliðs ríkissjórnarinnar vegna Magma málsins. Hið sænska félag sem keypt hefur HS orku að stærstum hluta hefur full réttindi á hinu Evrópska efnahagssvæði og er lögmætur eigandi hlutarins í HS orku. Kaup Magma á hlutum í HS orku er ennfremur alfarið í samræmi við lög frá árinu 2008 þar sem kveðið er á um aðskilnað milli eignarhalds á orkulindum og framleiðslu eða dreifingar.

Mikilvægt er að erlendir fjárfestar búi við stöðugleika í starfsskilyrðum hér á landi og þurfi ekki að vera skotspónn í innanbúðarátökum í stjórnarliðinu eins og Magma hefur þurft að þola. Ísland þarf á erlendu fjármagni að halda bæði lánsfé og fjárfestingum í atvinnulífi. Erlendir fjárfestar sem fara að gildandi lögum í einu og öllu eiga ekki að þurfa að eiga sitt undir tilviljanakenndum viðsnúningi stjórnvalda og margvíslegum andróðri frá ráðherrum í ríkisstjórn landsins. Slík vinnubrögð eru ekki til þess fallin að auka traust á Íslandi í samskiptum við aðrar þjóðir, hvort heldur það eru einkaðailar eða opinberir aðilar sem eiga í hlut.

Helsta verkefnið í atvinnumálum nú er að koma fjárfestingum stórra sem smárra fyrirtækja af stað í því skyni að skapa ný störf til skemmri og lengri tíma. Aðeins með aukinni atvinnusköpun getur þjóðin endurheimt lífskjör sín. Margt jákvætt hefur verið að gerast í atvinnulífinu þrátt fyrir alla erfiðleikana og með þeim stóru fjárfestingartækifærum í orkuframleiðslu og orkunýtingu sem liggja fyrir mætti skapa nægan hagvöxt og tekjur til þess að hefja alvöru framfarasókn í stað skattahækkana og lífskjaraskerðingar.

Fyrir meira en ári síðan við undirskrift stöðugleikasáttmálans hét ríkisstjórnin því að hafa rutt úr vegi fyrir 1. nóvember 2009 öllum hindrunum vegna álversins í Helguvík og tengdum virkjanaframkvæmdum. Á þeim tíma lágu fyrir öll mál sem tengjast eignarhaldi Magma á HS orku og úrvinnsla þeirra var liður í að gera HS orku mögulegt að afla fjármagns til virkjanaframkvæmda. Þess vegna kemur það á óvart nú þegar eignarhald á HS orku hefur skýrst og fjárhagsleg framtíð fyrirtækisins tryggð að þá skuli stjórnvöld vera að setja í gang pólitískar leiksýningar í því skyni að varpa rýrð á fyrirtækið og getu þess til að taka þátt í nauðsynlegri atvinnusköpun.