Meginhlutverkið að bæta lífskjörin

Hlutverk Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins hlýtur að vera að finna leiðir til að bæta lífskjör í landinu en ekki kapphlaup um hvort hægt sé að hækka meira, laun eða verðlag. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við fréttastofu RÚV. Vilhjálmur segir verðbólgu allt of háa en hún eigi sér ýmsar skýringar.

"Ef við bara lítum á tilefnin. Skoðum gengisþróunina á undanförnum mánuðum. Skattahækkanir og launahækkanir, þá safnast þetta allt saman í þennan punkt núna. Síðan eru útsölur að ganga til baka, þannig að það hjálpast allt að við að gera þessa tölu allt of háa."

Rétt er að halda því til haga að samkvæmt forsendum samkomulags aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar Íslands við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011 hefði átt að lækka tryggingargjaldið um 0,75% um sl. áramót í takt við minnkandi atvinnuleysi og rúma fjárhagsstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Lækkuninni var ætlað að standa undir hluta af 3,25% umsömdum hækkunum launa þann 1. febrúar sl. Við þetta var ekki staðið, gjaldið lækkaði aðeins um 0,1%, og því þurfa launagreiðendur á Íslandi að borga aukalega um 6 milljarða króna á árinu 2013 til ríkisins. SA bentu á þegar þetta var ljóst að afleiðingarnar yrðu slæmar, færri yrðu ráðnir í ný störf og líkur væru á að verðbólga hjaðnaði ekki eins og til stóð. Þetta hefur nú komið á daginn.

Vilhjálmur segir í samtali við RÚV að Samtök atvinnulífsins hvetji fyrirtæki til mikillar ábyrgðar í verðlagsmálum og ásakanir forseta ASÍ um annað séu fráleitar. Skoða beri leiðir til að auka kaupmátt með öðrum leiðum en beinum kauphækkunum líkt og gert var í þjóðarsáttarsamningunum.

"Það hlýtur að vera verkefni hans [Gylfa Arnbjörnssonar] eins og mitt að spá í hvernig við getum bætt lífskjörin í landinu en ekki fara í eitthvað kapphlaup um það hvort hægt er að hækka launin meira en verðlagið."

Frétt RÚV 28.2. 2013