Með flensueinkenni að vori

„Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer með fjaðrabliki háa vegaleysu í sumardal að kveða kvæðin þín! Heilsaðu einkum, ef að fyrir ber engil með húfu og rauðan skúf, í peysu. Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.“ Þessar ljóðlínur orti Jónas Hallgrímsson árið 1844 og eru taldar hvatning skáldsins  til landsmanna um að láta ekki deigan síga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Baráttan sem við öll heyjum nú er annars eðlis en kvæðið á enn við. Því þrátt fyrir að árangur Íslendinga í að ná tökum á faraldrinum hafi vakið heimsathygli er björninn ekki unninn enn. Á meðan ekki er til meðferð eða bóluefni gegn faraldrinum er óvissan um framtíðina mikil. Skaðinn af völdum hans mun ekki verða ljós fyrr en óvissunni er eytt.

Margt er breytt. Ferðavilji og neysluhegðun fólks hefur tekið stakkaskiptum, ríflega 70 prósent Bandaríkjamanna telja sig ekki örugg á börum og veitingastöðum og 85 prósent telja sig ekki örugg í flugvél, samkvæmt könnun sem CBS fréttaveitan gerði nýverið. Breyttar neysluvenjur vegna samkomubanns sjást ekki síður í kortatölum Íslendinga þar sem netverslun í apríl jókst um 260 prósent milli ára. Samfara afléttingu takmarkana mun margt í hinu daglega lífi okkar færast rólega í átt að kunnuglegum hversdegi, en engu að síður verðum við að búa okkur undir að sumt verður aldrei aftur eins.

Áhrifin á samfélagið og vinnumarkaðinn verða ekki umflúin. Fjórir af hverjum tíu sem misst hafa vinnuna í Bandaríkjunum vegna heimsfaraldursins munu ekki snúa til baka í sama starfið, samkvæmt nýjasta tölublaði Economist. Störf munu hverfa en ný koma í staðinn. Þetta er sá veruleiki sem við blasir og einskorðast ekki við Bandaríkin.

Ferðaþjónustan verður fyrir mesta högginu í faraldrinum og afleiðingar þess munu vara áfram næstu misseri og jafnvel í nokkur ár. Fá ríki eru útsettari fyrir áfalli í ferðaþjónustu en Ísland. Höggið verður þungt og dökkar sviðsmyndir um verulegan efnahagssamdrátt líklegri en ella. Af þeim 26 þúsund manns sem unnu við ferðaþjónustu fyrir COVID-19 er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að ríflega tíu þúsund manns skipti um starfsvettvang.

Nauðsynleg aðlögun framundan

Stjórnvöld hafa stigið fram í þrígang með aðgerðapakka til að bjarga fyrirtækjum og verja störf. Tekið saman kosta pakkarnir þrír um 100 milljarða króna, við bætist tekjufall og aukin útgjöld vegna efnahagssamdráttarins. Ef fram fer sem horfir verður hallarekstur ríkissjóðs líklega um 350 milljarðar króna, sá mesti í fjörtíu ár hið minnsta, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Með hlutabótaleiðinni hafa stjórnvöld hjálpað fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir mesta tekjufallinu að halda ráðningasambandi við starfsfólk sitt á meðan mesti skellurinn gengur yfir. Takmörk eru hins vegar fyrir því hversu lengi ríkissjóður getur haldið slíkum björgunaraðgerðum úti. Nauðsynleg aðlögun verður að eiga sér stað á vinnumarkaði og á einhverjum tímapunkti þarf slík aðlögun að ganga yfir. Þegar viðspyrnan hefst þurfa stjórnvöld að hafa bolmagn til að bregðast við.

Hlutverk ríkisins er að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem er forsenda þess að hér vaxi og dafni blómlegt atvinnulíf sem svo skapar ný störf. Skattar eru of háir á Íslandi, þá þarf að lækka. Íþyngjandi regluverk og hömlur draga úr hvata til fjárfestinga og nýsköpunar, slíkt þarf að skoða með gagnrýnum augum. Draga þarf úr umsvifum hins opinbera og leyfa einkaframtakinu að fá meira súrefni. Það er hægt án þess að ráðast í blóðugan niðurskurð á grunnstoðum samfélagsins.

Frekari uppbygging innviða er nauðsynleg en hér þarf að forgangsraða þannig að þjóðhagslega hagkvæmir innviðir njóti forgangs umfram aðra. Sterkar undirstöður íslensks efnahagslífs gera hagkerfið betur í stakk búið til að takast á við efnahagssamdráttinn. Lágar opinberar skuldir, mikill þjóðhagslegur sparnaður, rúmur gjaldeyrisforði og sterkur viðnámsþróttur bankanna skapa aukið rými til að mæta tekjusamdrætti heimila og fyrirtækja.

Sú staða var ekki uppi fyrir rúmlega áratug síðan þegar önnur og gjörólík alþjóðlega krísa gekk yfir. Þrátt fyrir að við Íslendingar séum enn að glíma við flensueinkenni er sumarið ekki langt undan. Með hækkandi sól og hita verður allt betra. Við verðum að trúa því og látum ekki deigan síga í baráttunni, nú frekar en áður.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 21. maí.