Mat lagt á jákvæð áhrif minni reglubyrði

Sænska ríkisstjórnin hefur beðið tvær rannsóknarstofnanir um að undirbúa framkvæmd vandaðrar úttektar á jákvæðum áhrifum þess fyrir sænskt atvinnulíf að dregið verði úr reglubyrði af hálfu hins opinbera. Um það bil einni milljón sænskra króna verður varið til verkefnisins, en að sögn Björns Rosengren viðskiptaráðherra hafa Svíar ekki yfir að ráða jafn vönduðum aðferðum til að leggja mat á reglubyrðar atvinnulífsins og t.d. Danir, Belgar og Hollendingar. Hann telur það ákaflega mikilvægt að stjórnvöld búi yfir vönduðum upplýsingum til að tryggja hámarksárangur af starfi ríkisstjórnarinnar að því að draga úr reglubyrðum sænsks atvinnulífs. Reiknað er með að slík úttekt verði gerð árið 2003, í fyrsta sinn. Sjá nánar á vef sænsku samtaka atvinnulífsins.