Markmið um hjöðnun verðbólgu hafa reynst raunhæf

Meginmarkmið samkomulags á almennum vinnumarkaði um mitt síðasta ár var hjöðnun verðbólgu. Í verðbólguspá frá því í júli taldi Seðlabankinn hins vegar að samkomulagið myndi auka á verðbólguþrýsting og að 2,5% verðbólgumarkmið næðist ekki á næstu tveim árum. Staðreyndir um verðlagsþróun undanfarna sjö mánuði sýna að þessi verðbólguspá Seðlabankans hefur sem betur ekki gengið eftir. Árangurinn hefur orðið framar vonum og er útlit fyrir að verðbólgumarkmiðinu verði náð um mitt þetta ár. Með samstilltu átaki aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda hafa verðbólguvæntingar minnkað og óvænt launaskrið hefur ekki komið fram. Smám saman hefur dregið úr þenslu í hagkerfinu og fasteignamarkaðurinn kólnað.

Þetta kemur fram í nýrri greinargerð SA þar sem borin er saman verðlagsþróun undanfarna 7 mánuði og verðlagsspár.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Á myndinni er sýnd þróun verðbólgu undanfarið ár, markmið um hámarksverðbólgu skv. samkomulagi SA og ASÍ og verðbólguspá Seðlabankans frá 6. júlí. Einnig eru sýndar verðbólguspár bankanna frá því í október ásamt spá Seðlabankans frá 2. nóvember.

Árangur framar vonum

Staðreyndir um verðlag undanfarna sjö mánuði sýna að þróunin hefur orðið mun hagstæðari en spáð var um mitt síðasta ár, sérstaklega þegar miðað er við verðbólguspá Seðlabankans. Í stað þess að vaxa í 11-12% náði verðbólgan hámarki í 8% á 3. ársfjórðungi síðasta árs, hjaðnaði í 7,1% á 4. ársfjórðungi og stefnir nú hratt niður á við.

Spá Seðlabankans frá júlí í fyrra um áframhaldandi tveggja tölustafa verðbólgu fram yfir mitt þetta ár og hæga hjöðnun reyndist því sem betur fer ekki á rökum reist. Spá bankans hefur raunar reynst svo langt frá réttu lagi að neðstu mörk í óvissubili hennar (90% óvissubil) eru 1,5 - 2,5 prósentustigum ofan við raunverulega verðlagsþróun á 3. og 4. ársfjórðungi 2006. Spáin fellur m.ö.o. langt fyrir utan og ofan raunverulega verðlagsþróun. Kom því ekki á óvart að bankinn lækkaði mjög mikið verðbólguspá sína í nóvember. Þar var þó einnig gert ráð fyrir tæplega 8% verðbólgu á fyrsta fjórðungi þessa árs, sem einnig er ólíklegt að muni standast, en nær lagi er að búast við 5,5-6%. Raunveruleg þróun verðbólgu undanfarna sjö mánuði staðfestir því að átak SA og ASÍ til hjöðnunar verðbólgu hefur borið meiri árangur en nokkur þorði að vona á þeim tíma þegar samkomulagið var gert. Markmið samningsaðila um hjöðnun verðbólgu hafa því reynst raunhæf og íhlutun samningsaðila inn í þróunina skipt sköpum.

Myndin sýnir einnig að greiningardeildir bankanna hafa allar spáð ört hjaðnandi verðbólgu á þessu ári, líkt og stefnt var að með samkomulagi á vinnumarkaði í júní. Kannanir meðal fyrirtækja og almennings gefa hið sama til kynna.

Sjá nánar: Greinargerð SA (PDF-skjal).