Markaðurinn ráði för

Lagasetningu sem er ætlað að jafna hlut kynjanna í viðskiptalífinu fylgja vandamál þar sem hún kallar á tvöfalt stjórnkerfi fyrirtækja og veldur því að ákvarðanir varðandi rekstur þeirra eru ekki teknar á réttum stöðum. Þetta sagði Halla Tómasdóttir, starfandi stjórnarformaður Auðar Capital á námstefnunni Virkjum fjármagn kvenna í morgun. Halla sagðist tala af eigin reynslu frá því hún vann við mannauðsstjórnun í Bandaríkjunum. Halla sagði farsælla að jafna hlut kynjanna á forsendum markaðarins og sagðist hafa fulla trú á því að það væri hægt. Það væri bæði sýnt og sannað að viðskiptalífið verði af miklum auði með því að nýta ekki þá eiginleika sem konur hafi til brunns að bera. Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður SA, sagði valdboð líkt og iðkað er í Noregi ekki réttu leiðina til að velja í stjórnir fyrirtækja. Fjármagn hluthafa og þekking á rekstri ráði mestu um val í stjórnir. Konur þurfi að nýta fjármagn sitt til að tryggja sér stjórnarsæti og stofna fleiri fyrirtæki.

Uppselt var á Virkjum fjármagn kvenna

Uppselt var á námstefnuna en á fjórða hundrað þátttakenda mætti til að ræða um konur, fjármagn og rekstur fyrirtækja. Viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, setti námstefnuna og sagði í ávarpi sínu að ekki væri útilokað að löggjafinn setti á kynjakvóta á atvinnulífið ef fyrirtæki nýti ekki krafta kvenna í auknum mæli. Lögfesting kynjakvóta væri þó ekki skynsamlegt fyrsta skref. Í umræðum hlaut þessi hugmynd lítinn hljómgrunn, allt eins væri hægt að binda í lög að 40% grunnskólakennara ættu að vera karlar. Fólk yrði að hafa val um starfsframa en það væri mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins - bæði karla og kvenna - að hæfileikar og kostir beggja kynja væru nýttir. Fyrirtækjum sem geri það farnist betur og búi starfsmönnum sínum betra starfsumhverfi.

Karin Forseke, Bjarni Ármannsson, Kristín Pétursdóttir og Jón Scheving Thorsteinsson ræddu um konur og fjármálageirann

Gestur námstefnunna var Karin Forseke, en hún er fyrsta kona heims til að stýra fjárfestingarbanka. Karin hefur yfir þriggja áratuga reynslu úr fjármálageiranum á alþjóðavettvangi og er stjórnarmaður í breska fjármálaeftirlitinu. Í afar líflegu erindi ræddi hún um uppeldi sitt í jafnréttisríkinu Svíþjóð þar sem hún fékk að gera allt sem bræður hennar og faðir gerðu og meira til - því hún fékk að vinna húsverkin en þeir ekki! Sagðist hún sannur femínisti og lýsti leið sinni til frama innan fjármálaheimsins, allt frá því að vinna á gólfinu sem verðbréfamiðlari upp í að vera forstjóri Carnegie fjárfestingarbankans. Karin sagði konur svo sannarlega hafa mikið fram að færa innan fjármálageirans og þangað ættu þær fullt erindi. Það væru áhugaverðir tímar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem byðu konum upp á fjölmörg tækifæri þrátt fyrir yfirstandandi lánsfjárkreppu sem hvert mannsbarn kann orðið skil á.

Þátttakendur voru vel með á nótunum 

Þá fluttu þær Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis afar áhugaverð erindi um rekstur eigin fyrirtækja og hvernig þær hafi ákveðið að skapa sína eigin framtíð með því að kaupa rekstur fyrirtækjanna. Líflegar umræður fóru fram á námstefnunni en í umræðu um konur og fjármálageirann tóku m.a. þátt Bjarni Ármannsson fjárfestir, Jón Scheving Thorsteinsson stjórnarmaður Arev Verðbréfa, Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital og Karin Forseke. Um konur og rekstur fyrirtækja leiddu umræður þau Margrét Kristmannsdóttir formaður FKA, Þórólfur Árnason forstjóri Skýrr, Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri Landic Property og Elín Jónsdóttir framkvæmdastjóri Arev Verðbréfa.

Margrét Kristmannsdóttir, Elín Jónsdóttir, Þórólfur Árnason og Skarphéðinn Berg Steinarsson ræddu um konur og rekstur fyrirtækja 

Námstefnunni stýrði Þóranna Jónsdóttir frá Auði Capital en það voru Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, iðnaðarráðuneytið og viðskiptaráðuneytið sem stóðu að námstefnunni.

Sjá nánar:

Setningarávarp Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra

Glærur Höllu Tómasdóttur

Glærur Guðrúnar Bjarkar Bjarnadóttur

Glærur Margrétar Guðmundsdóttur