Mannréttindi – nei takk?
Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með upphrópunum sumra stjórnmálamanna undanfarna daga, í framhaldi af málefnalegum athugasemdum Samtaka atvinnulífsins og Verslunarráðs Íslands, um samkeppnislög og vinnubrögð Samkeppnisstofnunar. En um hvað hefur þessi gagnrýni snúist af hálfu SA og VÍ?
Óviðunandi frávik frá Evrópureglum
SA hafa bent á að íslensk samkeppnislög og beiting þeirra
séu augljóslega ekki í samræmi við reglur Evrópuréttarins. Það sé
óviðunandi fyrir íslensk fyrirtæki, sem eiga heimtingu á því að
sambærilegar leikreglur gildi á Evrópska efnahagssvæðinu að þessu
leyti.
Til dæmis hafa SA fært rök fyrir því að reglur um sektarákvarðanir séu nú strangari og minna réttaröryggi við beitingu þeirra en annars staðar í Evrópu, þótt því hafi ranglega verið haldið fram í greinargerð með frumvarpi að breytingum á samkeppnislögum, að með breytingu á 52. gr. um sektarákvarðanir væri verið að laga íslensk ákvæði að því sem tíðkaðist í Evrópu, þ.e. þeirri meginreglu að sektir skuli leggja á. Engin slík meginregla er til.
Einnig hafa SA bent á að aðrar og vandaðri málsmeðferðarreglur myndu gilda um húsleitir ef Eftirlitsstofnun EFTA stæði að rannsókn, heldur en gildir um framkvæmd slíkra rannsókna af hálfu Samkeppnisstofnunar.
VÍ hefur að undangenginni ítarlegri athugun, sett fram athugasemdir í mörgum liðum, um það sem skort hefur á um að nýlegar húsleitir Samkeppnisstofnunar hjá olíufélögum stæðust ákvæði laga um meðferð opinberra mála, svo sem um viðveru starfsmanna, upplýsingar um réttarstöðu og skráningu haldlagðra gagna.
Lýðskrum
Helstu viðbrögð enn sem komið er eru þau að
tækifærissinnaðir stjórnmálamenn hafa farið mikinn af þessu
tilefni, og skáka í því skjólinu, að vegna óvinsælda olíufélaga og
annarra stórfyrirtækja, sé hægt að slá pólítískar keilur með því að
veitast að þessum fyrirtækjum og starfsfólki þeirra. Það sé betur
fallið til atkvæðaveiða í andrúmslofti dagsins en eitthvert hjal um
réttaröryggi og mannréttindi þeirra sem sæta rannsókn opinberra
stofnana. Kröfur um verklag við rannsókn og haldlagningu, sem
sjálfsagðar þættu við lögreglurannsókn á eiturlyfjasmyglurum,
kallar Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður nöldur og þaðan af
verra, þegar starfsfólk olíufélaga á í hlut. Svo fjandsamleg
viðhorf í garð atvinnulífsins eru vonandi fátíð meðal
stjórnmálamanna.
Sérkennilegt er að heyra viðskiptaráðherra tala um að sumum finnist samkeppnislögin of "metnaðarfull" í tilefni af gagnrýni á skort á réttaröryggi og svara því að Alþingi hafi "visst sjálfstæði," þegar bent er á frávik frá Evrópureglum, á skjön við það sem segir í greinargerð. Slík svör munu ekki duga.
Endurskoðun laganna óhjákvæmileg
Ljóst er að ekki verður undan því vikist að endurskoða
samkeppnislög þótt skammt sé liðið frá síðustu endurskoðun. Í þá
endurskoðun var farið að frumkvæði atvinnulífsins, en hún reyndist
í skötulíki þegar upp var staðið og undirbúningur
lagabreytingarinnar meingallaður. SA gerði viðskiptaráðherra grein
fyrir því með bréfi í desember 1999 hvert stefndi í starfi
endurskoðunarnefndar og áréttaði þau sjónarmið sem voru fyrir borð
borin í skýrslu nefndarformanns. Við því hafa engin viðbrögð borist
fram á þennan dag.
Auk þeirra atriða sem nefnd eru að framan er brýnt að endurskoðun samkeppnislaga taki til heimilda til að banna samruna og til stjórnsýslukafla laganna. Við endurskoðun dómstólalaga 1992 þótti ekki fært að sami maður rannsakaði og dæmdi mál. Það er reglan á þessu sviði og raunveruleikinn er raunar sá að sama aðila er einnig falið að skrifa bæði lögin og reglurnar. Þessu þarf að breyta.
Megin leiðarljósið við þá endurskoðun sem nú þarf að fara fram á að vera það að íslensk fyrirtæki búi ekki við óhöndugri reglur á þessu sviði en samkeppnisaðilar þeira annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
Ari Edwald.