Lög um Seðlabanka Íslands verði endurskoðuð

Samtök fiskvinnslustöðva skora á stjórnvöld að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands meðal annars með það fyrir augum að endurskoða verðbólgumarkmið bankans. Í ályktun aðalfundar samtakanna segir að háir stýrivextir bankans hafi leitt til hækkunar á gengi krónunnar og valdið miklu gengisflökti á undanförnum mánuðum. Þessir háu stýrivextir og hækkun á gengi krónunnar hafi einnig ýtt undir einkaneyslu á meðan útflutnings- og samkeppnisgreinar hafi verið grátt leiknar. "Það gengur einfaldlega ekki að gengi íslensku krónunnar taki ekkert mið af aðstæðum útflutningsgreina, heldur stjórnist orðið að mestu af erlendum skammtímafjárfestum sem gera út á mikinn vaxtamun milli Íslands og okkar helstu viðskipta- og samkeppnislanda. Slíkt mun enda með ósköpum fyrr en síðar," segir ennfremur í ályktuninni. Hana má lesa í heild sinni hér að neðan:

                    

Ályktun aðalfundar Samtaka fiskvinnslustöðva 28. september 2007

Á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var í dag voru lagðar fram upplýsingar um þróun heildarafla, afurðaverðs, gengis, hráefniskostnaðar og annarra útgjaldaliða er ráða miklu um afkomu í sjávarútvegi.

Þessir gögn staðfesta erfiða afkomu einstakra   vinnslugreina og sjávar-útvegsins í heild. Verðlag á íslenskum sjávarafurðum á erlendum mörkuðum hefur haldist hagstætt að frátöldum afurðum rækju-vinnslunnar, en kostnaður innanlands hefur á móti hækkað mikið. Framundan er rúmlega 30% skerðing þorskveiðiheimilda, sem leiðir til allt að 20 milljarða skerðingu útflutningstekna sjávarafurða á næsta ári. Mótvægisaðgerðir stjórnvalda vega lítið á móti því  gríðarlega tjóni sem sjávarútvegsfyrirtækin standa frammi fyrir. Við þessar aðstæður hefur gengi íslensku krónunnar tekið að styrkjast á nýjan leik sem eykur enn á vandann sem var nægur fyrir.

Barátta Seðlabankans við þensluna með mjög háum stýrivöxtum er afar ómarkviss og bitnar harkalega  á fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Peningamálastefna bankans hefur fyrst og fremst þau áhrif að halda uppi háu gengi krónunnar, en áhrif á fjárfestinga í atvinnulífi eða íbúðarhúsnæði eru hverfandi.  

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á stjórnvöld að láta fara fram nú þegar endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands meðal annars með það fyrir augum að endurskoða verðbólgumarkmið bankans. Háir stýrivextir bankans hafa leitt til hækkunar á gengi krónunnar og valdið miklu gengisflökti hennar á undanförnum mánuðum. Þessir háu stýrivextir og hækkun á gengi krónunnar hafa einnig ýtt undir einkaneyslu á meðan útflutnings- og samkeppnisgreinar hafa verið grátt leiknar.

Það gengur einfaldlega ekki að gengi íslensku krónunnar taki ekkert mið af aðstæðum útflutningsgreina, heldur stjórnist orðið að mestu af erlendum skammtímafjárfestum sem gera út á mikinn vaxtamun milli Íslands og okkar helstu viðskipta- og samkeppnislanda. Slíkt mun enda með ósköpum fyrr en síðar.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á stjórnvöld að fella alfarið niður nú þegar veiðigjald á sjávarútvegsfyrirtæki. Það væri skjótvirkasta mótvægisaðgerðin fyrir sjávarútveginn í heild og skapar niðurfelling þessarar sértæku skattheimtu á eina atvinnugrein, ekki fordæmi fyrir aðrar atvinnugreinar.

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á stjórnvöld að stórauka hafrannsóknir við Ísland og leggja mikla áherslu á áframhaldandi rannsóknir á þorskstofninum og ýmsum vannýttum fisktegundum sem lítt hafa verið rannsakaðar.