Loftslagsviðræður standa yfir í Bonn

Í þessari og næstu viku standa yfir í Bonn loftslagsviðræður nánast allra ríkja heim. Viðræðurnar fara fram eftir áætlun sem ríkin komu sér saman um á Balí í desember á síðasta ári. Ferlið hófst í Bangkok í byrjun apríl og mun halda áfram í Ghana í ágúst og í Póllandi í desember. Á árinu 2009 verða svo mikil fundahöld sem ætlunin er að standi í 8 - 10 vikur áður en þeim lýkur á tveggja vikna ráðstefnu í Kaupmannahöfn í desember 2009. Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, er staddur í Bonn og fylgist með viðræðunum og lýsir þeim hér, m.a. áherslum Íslands og vandanum sem við er að glíma.

Flóknar viðræður

Viðræðurnar eru margbrotnar og flóknar. Í fyrsta lagi er um að ræða samningaviðræður um frekari skuldbindingar þeirra ríkja sem tóku á sig skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Þau eru um 40 talsins og auk aðildarríkja ESB er þar um að ræða Ástralíu, Nýja Sjáland, Kanada, Noreg, Sviss, Ísland, Rússland, Úkraínu auk nokkurra annarra. Þróunarríkin krefjast þess að þessi ríki dragi verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda hratt og örugglega. Þau eru algerlega á móti því að þessar viðræður geti leitt til þess að þróunarríkin taki á sig nokkrar skuldbindingar hvort sem þær nái til ríkja, einstakra geira atvinnulífsins eða setji viðmið um orkunýtingu eða geti á nokkurn hátt falið í sér nokkrar kvaðir.

Í öðru lagi er rætt um langtímaskuldbindingar þar sem ríkin reyna að koma sér saman um sameiginlega sýn um að draga úr útstreyminu og aðferðir til þess. Rætt er um aðlögun að loftslagsbreytingum, tækniþróun og fjármögnun. Fram kemur að ef ætlast verður til þess að þróunarríkin dragi úr útstreymi verði iðnríkin að greiða fyrir það með því að leggja fé í sjóði sem standi straum af kostnaði sem því fylgir. Meðal annars er viðruð sú hugmynd að iðnríkin kaupi útstreymisheimildir sem seldar verði á uppboði og fjármagnið notað til aðstoðar við þróunarríki. Þar að auki verði iðnríkin að leggja til fé til aðstoðar þróunarríkjum til aðlögunar að loftslagbreytingum og gera þeim kleift að auka tæknistig í ríkjunum. Þróunarríkin tala að mestu einum rómi en eru á afar misjöfnu þróunarstigi allt frá háþróuðum tækniþjóðfélögum eins og Kóreu til fátækustu ríkja heims.

Í þriðja lagi er fjallað um endurskoðun Kyoto-bókunarinnar í heild. Þar er meðal annars fjallað um að auðveldara þurfi að vera að breyta viðaukum við bókunina þar sem ákveðnar eru skuldbindingar einstakra ríkja. ESB hefur lagt fram tillögur sem eiga að verða hluti af heildarsamkomulagi þar sem lagt er til að viðaukum sé unnt að breyta án þess að krafist sé formlegs staðfestingarferlis. ESB kynnir þrjár mismunandi tillögur. Í þeirri fyrstu teldust einstök ríki samþykk breytingum ef þau mótmæla þeim ekki, annar valkostur er að einstök ríki hafi möguleika á að taka fram að breytingar gagnvart þeim öðlist ekki gildi nema með formlegri staðfestingu og í þriðju tillögu ESB er gert ráð fyrir að tiltekinn fjöldi aðildarríkja geti með samþykkt gert samkomulag bindandi gagnvart öllum aðildarríkjum.

Mjög mörg önnur atriði eru til umfjöllunar sem tengjast loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Kyoto bókuninni. Líklegt er að öll þessi atriði tengist saman og að ekki náist samkomulag nema um öll atriði á sama tíma og nánast útilokað að samið verði um framhald Kyoto-bókunarinnar án þess að á sama tíma verði samið um þátttöku allra ríkja við að draga úr útstreymi til langs tíma.

Áherslur Íslands
Fyrir fundina í Bangkok lagði Ísland fram sín sjónarmið í tveimur skriflegum yfirlýsingum. Megináherslan er að unnt verði að telja með samdrátt í útstreymi sem verður vegna endurheimt votlendis. Að auki var minnst á stuðning við svokallaða geiranálgun og að einstök verkefni geti haft mikil áhrif á útstreymi smáríkja. Bæði í Bangkok og í Bonn hafa fulltrúar Íslands fylgt vel eftir sjónarmiðum um að endurheimt votlendis og að allar uppsprettur og allir viðtakar gróðurhúsalofttegunda teljist með í bókhaldi.  Þess má geta að útstreymi vegna breytinga á landnotkun á Íslandi er um 1,8 milljónir tonn á ári og ef það er talið með í útstreymi Íslands var heildarútstreymi á landinu 5,4 milljónir tonna árið 1990 og 5,5 milljónir tonna árið 2005. Útstreymi vegna votlendis er þannig um 1/3 af heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi samkvæmt tölum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Framræst votlendi er m.a. nýtt undir tún og sem beitarland.

Vandinn sem við er að eiga
Mjög mikilvægt er talið að ríki heims nái saman um aðferðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til að draga úr hættu sem stafað getur af hlýnun lofthjúps jarðar.  Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að útstreymi þurfi að ná hámarki á næstu 10 - 15 árum og minnka svo hratt eftir það. Til þess að þetta geti orðið er talið að iðnríkin þurfi að draga úr útstreymi um 25 - 40% til ársins 2020. Á kynningu Alþjóða orkustofnunarinnar (IEA) í Bonn í fyrradag kom fram að á sama tíma eykst útstreymi í þróunarríkjunum hratt og nú er talið að Kína hafi farið fram úr Bandaríkjunum hvað varðar útstreymi í heild og að Indland verði komið í 4. sæti árið 2030 á eftir Kína, Bandaríkjunum og ESB. Einnig kom fram að samdráttur í útstreymi sem ESB hefur sett sem markmið á öllu tímabilinu 2006 til 2020 muni jafnast út af útstreymi í Kína á einu ári 2020. Í Kína eru nú byggð orkuver með uppsett afl um 100 GW á hverju ári (140 Kárahnjúkavirkjanir) og nýta um  90% þeirra kol til orkuframleiðslunnar. Á ráðstefnunni í Bonn kemur aftur og aftur fram að mikilvægt sé að auka nýtingu endurnýjanlegra orkulinda.

Sjá nánar: 

Tillögur ESB og fleiri ríkja vegna endurskoðunar Kyoto-bókunarinnar (PDF)

Umfjöllun Íslands og fleiri ríkja vegna viðræðna um frekari skuldbindingar ríkja samkvæmt Kyoto-bókuninni (PDF)

Umfjöllun Íslands og fleiri ríkja vegna viðræðna um langtímaskuldbindingar ríkja (PDF)