Loftslagsmál: Íslenska ákvæðið gildi áfram

Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út markmið um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 15% frá 1990 sem er um 25% samdráttur frá 2008-12. Þetta vilyrði í alþjóðlegu loftslagsviðræðunum er meðal annars skilyrt því að íslenska ákvæðið gildi áfram á næsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar.

Ríkisstjórn sú sem nú situr (með Svandísi Svavarsdóttur sem umhverfisráðherra) hefur fylgt sömu stefnu í alþjóðlegu loftslagsviðræðunum og þær tvær fyrri (þar sem umhverfisráðherrar voru Kolbrún Halldórsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir). Stefnan hefur falist m.a. í því að Ísland sé tilbúið að taka á sig frekari skuldbindingar í loftslagsmálum í samræmi við það sem aðrir gera og eigin getu - m.a. að standa dyggan vörð um íslenska ákvæðið svonefnda. Aftur og aftur hafa fulltrúar stjórnvalda tekið til máls um þessi mál og ítrekað þessa afstöðu og fylgt henni eftir. Engin breyting hefur orðið þar á eftir því sem viðræðunum hefur undið fram. Á fundi í Bonn í júní sl. til undirbúnings nýjum loftslagssamningi lagði íslenska sendinefndin fram markmið og skilyrði Íslands vegna þátttöku í nýjum samningi.

Þann 1. júní kynnti sendinefndin stefnu ríkisstjórnarinnar um 15% samdrátt útstreymis gróðurhúsalofttegunda frá 1990 til 2020 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þessi skilyrði eru þau að samkomulag náist um reglur um hvernig telja beri fram útstreymi sem tengist landnotkun (landgræðsla, skógrækt, votlendi) og að ákvörðun 14. CP/7, sem kallað hefur verið íslenska ákvæðið gildi áfram. Um þessi skilyrði og sérstöðu Íslands er fjallað í stuttu máli í tilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Samtök atvinnulífsins hafa verið sammála ríkisstjórninni um þessa stefnu og hvetja hana til að halda henni til streitu. Íslensk stjórnvöld geta ekki og mega ekki láta þær útstreymisheimildir sem fylgja íslenska ákvæðinu falla niður árið 2013.  Stefnu sinni hlýtur ríkisstjórnin að fylgja allt til loka samningsferilsins hvort sem það verður í Kaupmannahöfn í desember eða síðar.

Tilkynning ríkisstjórnarinnar sem dagsett er 1. júní 2009 fylgir hér á eftir.

Smellið á myndina til að stækka:

Tilkyning ríkisstjórnar Íslands 1.6.2009