Loftslagsbreytingar fela í sér ógnir en líka tækifæri

Í erindi sínu á Umhverfisdegi atvinnulífsins fjallaði Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Artic Circle og fyrrverandi forseti Íslands, m.a. um áskoranir og tækifæri sem íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga og nýrra viðhorfa til norðurslóða. Íslendingar hafi á undanförnum áratugum byggt upp eftirsóknarverða reynslu og þekkingu sem njóti alþjóðlegrar viðurkenningar. Stuðningur alþjóðlegs atvinnulífs hafi skipt sköpum við gerð Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál.

Umhverfisdagur atvinnulífsins 2017 var helgaður loftslagsmálum þetta árið og var Ólafur Ragnar Grímsson, sérstakur gestur fundarins. Helstu atriði ávarps hans má nálgast hér að neðan og einnig er hægt að horfa á erindið í heild.

Ólafur Ragnar kom víða við og þakkaði hann Samtökum atvinnulífsins fyrir að halda umhverfisdaginn og helga hann baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þversögnin væri sú að þrátt fyrir allar þær ógnir sem felist í loftslagsbreytingum þá felist einnig fjölmörg tækifæri fyrir Ísland á æði mörgum sviðum. Þótt ógnin sé mikil og afleiðingarnar hrikalegar þá væri Ísland kannski eitt af örfáum löndum sem á undanförnum áratugum hafi safnað í sjóð reynslu, tækni, kunnáttu og þekkingar sem geri að verkum að æ oftar sé leitað hingað til að finna lausnirnar og efna til samstarfs við sérfræðinga, háskóla og fyrirtæki í því skyni m.a. á sviði umhverfis, upplýsingatækni og orku.

„Þá skiptir mestu máli að við höfum dug og samstöðu til að átta okkur á því að við erum góð í svo mörgu. Við höfum margt fram að færa og reynslubanki Íslendinga er dýrmætur þó að fyrirtækin séu smá og þjóðin fámenn."

Ólafur Ragnar minntist á umhverfissamtökin Conservation International sem ólíkt mörgum öðrum samtökum leita samstarfs við atvinnulífið. Hjá þeim starfa um 1.600 manns og þau velta 300 milljónum Bandaríkjadala á ári. Fulltrúar samtakanna hafa komið til Íslands og kynnt sér lausnir íslenskra fyrirtækja á mörgum sviðum.

Loftslagsmálin eru ekki bara hugsjónaumræða í umhverfismálum eða viðfangsefni fáeinna sérfræðinga og ekki einungis spurning um nýja sýn og nýtt siðferði gagnvart umhverfinu. Heldur teygja þau sig inn á svið viðskipta. Og þar hafa Íslendingar betri viðspyrnu vegna kunnáttu og árangurs. Það er því miður ekki í tísku á Íslandi að tala um þau svið þar sem við stöndum okkur vel. Nema í fótboltanum. En það má ekki tala um það sem vel gengur í viðskiptalífinu. Því þarf að breyta. Til þess að nýta tækifærin þá verður að vera raunhæf sýn á þau svið þar sem íslensk fyrirtæki standa sig vel og eru með þeim bestu í veröldinni. Það er jafn mikilvægt að vera raunsær gagnvart því sem vel er gert og að miklast ekki um of af því sem ekki er innistæða fyrir.


Það er eiginlega ævintýri að útskýra það um aldamótin 1900 hafi búið hér 100 þúsund manns og hér hafi engar hafnir verið, engir vegir, engin orkuver og engir innviðir. Við vorum þá og næstu áratugi ein fátækasta þjóðin í Evrópu. Nú eru Íslendingar leiðandi á viði orkumála og hingað koma leiðtogar og forystumenn til að kynna sér árangurinn sérstaklega jarðhitanýtingu. Í sjávarútvegi; veiðum, vinnslu og markaðssetningu og allri tækni eru fyrirtæki í allra fremstu röð. Glíman við eyðimörkina hér á landi, þá stærstu í Evrópu, undanfarin 100 ár hefur skilað miklum árangri. Á öllum þessum sviðum hefur Háskóli Sameinuðu þjóðanna ákveðið að stofna deildir hér á landi; sjávarútvegi, landgræðslu og jarðhita.

Íslendingar hafa náð miklum árangri við að reisa mannvirki við erfiðar veðuraðstæður sem standast ofsaveður og mikla jarðskjálfta. Og þetta skapar einnig forskot á marga aðra. Íslenskt atvinnulíf er með margar greinar sem eru nánast í brennipunkti þess sem þarf að takast á við til að ná árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar. Það er tiltölulega nýtt að atvinnulíf og fyrirtæki séu komin framarlega í þessa sveit sem áður var skipuð vísindamönnum, hugsjónafólki og umhverfissinnum.


Fyrir um 15 árum efndi Ólafur ásamt Jeffrey Sachs til ráðstefna um loftslagsbreytingar til að vekja athygli atvinnulífs og fyrirtækja á loftslagsmálum vegna þess að umræðan var þá jafnvel talin geta ógnað atvinnulífinu. Þá voru fylkingarnar taldar fjandsamlegar. Umhverfissinnar öðrum megin vallarins og atvinnulífið hinum megin. Spurningin var: Hverjir vinna?

Í París fyrir tveimur árum var þetta gjörbreytt. Þetta var orðið eitt lið. Margir forstjórar stórra og öflugra fyrirtækja mættu til Parísar. Parísarráðstefnan varð í raun atvinnulífssamkoma og var í eðli sínu orkuráðstefna. Stjórnmálamenn höfðu áttað sig á því að nauðsynlegt væri að atvinnulífið yrði að vera með til að samkomulag gæti náðst í París. Sem ekki hafði náðst á fyrri ráðstefnum m.a. í Kaupmannahöfn. Og því er umræðan, sem var viðfangsefni fárra sérfræðinga fyrir um tveimur áratugum, nú orðið eitt helsta viðfangsefni atvinnulífsins um heim allan.


Arctic Green Energy ásamt kínverska orkufyrirtækinu Sinopec hafa byggt 80 hitaveitur þar í landi og stefna að enn risavaxnari áföngum á næstu árum. Kínverjar gera sér grein fyrir nauðsyn þess að draga úr mengun og jafnframt tækifærum sem felst í því að verða leiðandi afl á þessu sviði. Og þeir eru það, bæði með nýtingu sólarorku, vindorku og jarðhita. Kínverjar, sem áður voru taldir vandamál á þessu sviði, eru leiðandi og hafa sýnt fram á að virk þátttaka í umbreytingu orkukerfa í þágu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum er ein besta leiðin til að byggja upp öflugt, traust og arðsamt atvinnulíf.

Norðurslóðir eru nú í brennidepli. En voru líka á jaðrinum fyrir tveimur áratugum. En vegna loftslagsbreytinga og annarra atriða hafa norðurslóðir færst nær í hagkerfi heimsins og verða það enn frekar á þessari öld. Ráðstefnan Arctic Circle sýnir þetta best. Hún stendur hér árlega í þrjá daga og dregur til sín 2000 erlenda gesti frá 50 löndum.


Ísland, sem lengi var sagt á mörkum hins byggilega heims, er í miðju þessa svæðis sem í vaxandi mæli er eitt helsta umsvifa- og breytingasvæði heimsins. Flest helstu ríki heimsins hafa gert þróun þessa svæðis og stöðu ríkjanna á því að lykilefni. Lögun jarðarinnar gerir stöðu Íslands einstaka bæði með tilliti til flugsamgangna og vöruflutninga. Norðurslóðir eru ríkar af auðlindum bæði olíu og gasi en einnig málmum og sjávarauðlindum. Það er að opnast nýtt haf og það skiptir gríðarlegu máli að skipuleggja veiðar og siglingar.

Dæmin um tækifærin, sem felast í þessu samspili norðurslóða og loftslagsbreytinga, eru nánast óþrjótandi. Þetta er engin draumsýn, heldur raunveruleiki þar sem stjórnendur öflugra alþjóðlegra fyrirtækja leita til Íslands eftir samstarfi. Það er vegna þess að Íslendingar hafa eitthvað fram að færa sem skiptir máli. Í þessum efnum er ekki spurt um stærð, það er ekki spurt um fjárhagslegan styrkleika og það er ekki spurt um hernaðarlega stöðu. Heldur er spurningin á hvaða sviði eru styrkleikarnir, er það á sviði tækni, viðskipta, kunnáttu og reynslu. Það er merkilegt að Íslendingum hefur tekist að ná árangri á nánast öllum meginsviðum sem skipta sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og til að takast á við breytingar á norðurslóðum.


„Þá skiptir mestu máli að við höfum dug og samstöðu til að átta okkur á því að við erum góð í svo mörgu. Við höfum margt fram að færa og reynslubanki Íslendinga er dýrmætur þó að fyrirtækin séu smá og þjóðin fámenn. Því finnst mér að tækifæri þjóðarinnar og íslensks atvinnulífs, sem felast í glímunni við ógnirnar framundan, eru kannski kannski þau mest spennandi, umfangsmestu og arðbærustu sem íslenskt atvinnulíf hefur nokkru sinni séð frá því fórum að kaupa fyrstu flutningaskipin, fyrstu vélskipin og byggja fyrstu litlu orkuverin og ýta úr vör fyrirtækjunum sem urðu smátt og smátt grundvöllur að reynslu Íslendinga á þessu sviði.

Úr því að kynslóðum fyrri aldar tókst að byggja, úr fátækt fiskveiði og bændasamfélags, samfélag sem á fjölmörgum sviðum er talið af alþjóðlegum stofnunum í fremstu röð. Samfélag sem er talið vænlegur samstarfsvettvangur fyrir mörg af öflugustu fyrirtækjum heims. Hvað getum við þá nú? Með allan þennan árangur að baki og öll tækifærin og kunnáttuna í höndunum. Fyrst þeim sem á undan okkur fóru tókst að skapa, úr nánast engu, það samfélag sem við búum við í dag.“


Sjá ávarpið í heild í Sjónvarpi atvinnulífsins: